Nýjar sprungur geta komið í ljós á yfirborði næstu daga innan Grindavíkur
Út frá vefmyndavélum sést að dregið hefur úr hraunflæði upp úr gossprungunum sem opnuðust í gær. Flæðið úr syðri sprungunni sem opnaðist á hádegi í gær rétt við bæjarmörkin virðist hafa stöðvast. Megnið af hraunflæðinu er í suðvestur eftir leiðigarðinum sem reistur var og virðist hafa sannað gildi sitt, segir í tilkynningu frá Veðstofu Íslands.
„Erfitt er að leggja mat á hversu lengi þetta gos mun standa. Dregið hefur úr skjálftavirkninni og samkvæmt GPS mælingum dregur úr hreyfingum á svæðinu. Áfram mælast þó hreyfingar syðst í kvikuganginum undir Grindavík.
Út frá mælingum hefur gliðnun innan bæjarmarkanna verið allt að 1,4 m síðasta sólarhringinn sem dreifist yfir margar sprungur, nýjar hafa myndast og eldri opnast meira. Nýjar sprungur geta verið að koma í ljós á yfirborði næstu daga.
Eins og áður hefur komið fram þá eru gosstöðvarnar mikið hættusvæði og ekki er hægt að útiloka að nýjar gossprungur opnist án fyrirvara. Það var tilfellið þegar sprungan opnaðist við bæjarmörk Grindavíkur í gær. Engin merki sáust á mælitækjum í tengslum við þá gosopnun sérstaklega.
Fremur hæg norðaustanátt á gosstöðvunum í dag, en fer að bæta í vind síðdegis. Gasmengun berst því til suðvesturs út á haf. Norðan 10-18 m/s á svæðinu á morgun og gas berst þá til suðurs. Sjá spá veðurvaktar um gasdreifingu frá gosstöðvunum.
Veðurstofan heldur áfram að vakta svæðið og er í beinu sambandi við almannavarnir og viðbragðsaðila á svæðinu um framvindu atburðarins.
Vísindafólk hittist á samráðsfundi á vegum Veðurstofunnar nú í morgun. Farið var yfir þau gögn sem hafa safnast í tengslum við eldgosið.
Næstu dagar fara áfram í mælingar og öflun frekari gagna ásamt greiningu þeirra. Úr þeim gögnum er m.a. verið að vinna reiknilíkön til að átta sig betur á aðdraganda atburðarins og leggja mat á líklega framvindu eldgossins. Eins er verið að bera saman atburðarrásina 18. desember við eldgosið sem hófst í gær til að auka skilning á umbrotunum á svæðinu og leggja mat á hvaða sviðsmyndir eru líklegastar í framhaldinu.
Veðurstofan hefur uppfært hættumatskort. Kortið er óbreytt frá því síðast og gildir til miðvikudagsins 17. janúar, kl. 17 að öllu óbreyttu.“