Nýjar skurðstofur líklega rifnar niður
- hafa staðið auðar frá 2010 á Suðurnesjum
„Það er verið að skoða hvort eina staðan í málinu sé að rífa niður tvær skurðstofur, innréttingar sem kosta nokkra tugi milljóna, og koma annarri starfsemi þar fyrir í staðinn,“ segir Sigríður Snæbjörnsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunnar Suðurnesja, í samtali við Morgunblaðið í dag.
Í maí árið 2010 var tveimur nýjum og fullbúnum skurðstofum lokað og hafa þær ekki verið opnaðar síðan. Þar með var öllum skurðaðgerðum beint annað og um leið öllum áhættufæðingum beint á LSH. Fæðingum hjá HSS hefur í framhaldinu fækkað verulega og segir Sigríður álitamál hvernig fæðingarþjónusta verður á HSS á næstunni.
Ýmis tæki og tól úr skurðstofunum hafa verið lánuð annað í skemmri eða lengri tíma. Að öðru leyti hafa þær staðið óhreyfðar.
„Það var ekki notalegt að þurfa að loka þessu á sínum tíma,“ segir Sigríður í frétt Morgunblaðsins. Ákveðið var að bíða og sjá hvort starfsemin færi ekki af stað á nýjan leik en sú varð ekki raunin. Nú liggur fyrir að reyna að nýta húsnæðið undir aðra starfsemi. Sigríður áréttar að stofnunin sé ekki undir neinum þrýstingi að nýta skurðstofuna undir aðra starfsemi heldur þyki henni brýnt að finna not fyrir húsnæðið. Umfangsmikil lyflækningadeild, hjúkrunar-, öldrunarþjónusta og heilsugæsla er rekin á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja sem getur fundið önnur not fyrir rýmið.
Húsnæðið er sérhannað fyrir skurðstofurnar. Spurning er hversu miklu hægt sé að kosta til að breyta því. „Þetta er allt í skoðun en ekki er hægt að bíða miklu lengur,“ segir Sigríður. Ekki liggur fyrir hvenær eða hvort það verður gert, segir að endingu í frétt Morgunblaðsins.
VF-myndir: Hilmar Bragi