Nýjar gosrásir geta opnast með auknum þrýstingi og landrisi
Aukinn kvikuþrýstingur með meira landrisi við Svartsengi gæti valdið því að nýjar gosrásir opnist í sprungukerfinu. Jarðvísindamaðurinn Ari Trausti Guðmundsson segir nýjan gosfasa vera kominn í eldgosið norðan Grindavíkur.
„Samspil kvikuhólfs (sennilega stórs laggangs-sillu) og miklu stærri kvikuþróar á 10-20 km dýpi undir eldstöðvakerfi Svartsengi er nú sýnilegt. Eftir endurtekin eldgos á sprungusvæðinu NA af Grindavík er nú opin kvikurás á milli leifanna af gossprungunni frá 16. mars og innflæðis úr þrónni í hólfið,“ skrifar Ari Trausti á Facebook í morgun.
Hann segir að ferlið hafi breyst. Það sé orðið síflæði líkt og var í Geldingadalagosinu en þó án millistöðvar í stóru innskoti (kvikuhólfinu). „Raunar er þrýstingurinn að neðan heldur að aukast því landris er hafið að nýju ofan við kvikuhólfið. Það gæti ýtt undir virknina í gígnum (stóru eldborginni) sem ein bærir á sér skammt frá Sundhnúk (sem er sömu ættar en rúml. 2.000 ára),“ skrifar Ari Trausti.
Í kjölfar þess að gosrás við hliðina á stóru eldborginni virðist nú óvirk má vera að síðasti gígurinn sem nú gýs hressist enn við það.
„Engin sæmileg leið er til þess að áætla goslengd héðan af – ágiskanir hljóða upp á daga, vikur eða mánuði. Langt gos getur leitt til þess að hyggja þurfi að varnamannvirkjunum. Aukinn kvikuþrýstingur með meira landrisi gæti líka valdið því að nýjar gosrásir opnist í sprungukerfinu. Hvert og hvenær jarðeldur leitar loks burt úr þessu eldstöðvakerfi er svo allsendis óljóst,“ segir Ari Trausti í pistli sínum.