Nýjar áherslur í leikskólastarfi Sandgerðisbæ
Nýlega var undirrituð viljayfirlýsing Sandgerðisbæjar og Hjallastefnunar ehf. um að Hjallastefnan taki við rekstri leikskólans Sólborgar strax að loknu sumarleyfi leikskólans í ágúst. Gerður verður samningur við Hjallastefnuna um rekstur skólans til þriggja ára. Markmið samkomulagsins er að styrkja enn frekar það góða leikskólastarf sem fyrir er með nýjum áherslum, og hugmynda- og aðferðafræði Hjallastefnunnar. Hjallastefnan hefur áður verið ráðgefandi við leikskólann og verða tengslin styrkt enn frekar með þessum samningi. Á Leikskólanum Sólborg eru 130 börn á aldrinum 18 mánaða til 5 ára á fimm deildum.
Fjölmennt var á opnum kynningarfundi um fyrirhugaðar breytingar á rekstri leikskólans. Á fundinum kynnti Margrét Pála Ólafsdóttir áherslur Hjallastefnunnar í leikskólastarfi og svaraði fyrirspurnum foreldra og fundargesta. Hanna Gerður Guðmundsdóttir skólastjóri leikskólans sem starfað hefur þar frá árinu 2004 lét af störfum í lok maí og eru henni færðar bestu þakkir fyrir gott og metnaðarfullt starf. Sólveig Guðrún Ólafsdóttir gegnir starfi leikskólastjóra uns Hjallastefnan tekur við rekstrinum.
Á myndinni eru Sigrún Árnadóttir bæjarstjóri Sandgerðisbæjar og Margrét Pála Ólafsdóttir frá Hjallastefnu.