Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Nýja húsnæði bókasafnins leggst misvel í fólk
Fimmtudagur 25. júlí 2013 kl. 10:16

Nýja húsnæði bókasafnins leggst misvel í fólk

Bókasafnið deilir nú húsnæði með Ráðhúsi Reykjanesbæjar

Bókasafn Reykjanesbæjar flutti í nýtt húsnæði þann 11. júní en nú er það staðsett á Tjarnargötu 12 þar sem Sparisjóðurinn var áður til húsa. Ráðhús Reykjanesbæjar sem hýsa bæjarskrifstofurnar eru einnig til húsa í húsnæðinu og í ágúst er stefnt á að opna kaffihús á jarðhæðinni. Víkurfréttir kíktu í heimsókn á nýja bókasafnið og spjölluðu við Huldu Björk Þorkelsdóttur, forstöðumann bókasafnsins.

Erfitt er að mæla gestafjölda bókasafnsins en Hulda segir að það eina sem þau hafi til þess að mæla hann séu útlán, og voru þau bara mjög fín í júní. Aðspurð um viðtökur bæjarbúa við nýja húsnæðinu segir Hulda fólk taka því misvel. Margir sakna þess að hafa ekki bókasafnið út af fyrir sig en á jarðhæð hússins er einnig þjónustuver Reykjanesbæjar og kaffihús sem hefur þó ekki opnað enn. Engin svör fengust um hver yrði rekstraraðili kaffihússins en áætlað er að það opni um miðjan ágústmánuð.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Húsnæðið sem bókasafnið hefur út af fyrir sig er minna en það hafði áður í Kjarna. „Fastakúnnar eins og t.d. hópar sem hafa verið að koma á bókasafnið eins og Ættfræðihópurinn, Bókaspjallið og hópur eldri manna sem lagði það í vana sinn að mæta á hverjum morgni og lesa blöðin hafa þurft að aðlagast nýjum aðstæðum,“ segir Hulda. Sumir eru mjög ánægðir með nýtt og ferskt húsnæði en aðrir hafa þurft lengri tíma til að aðlagast nýju umhverfi enda þykja sumum breytingar ekki til hins betra. Margir reiknuðu nefnilega með því að bókasafnið fengi alla jarðhæðina út af fyrir sig.

Bókasafnið er nú á tveimur hæðum og er því dreifðara en áður. Lyfta er að sjálfsögðu á staðnum fyrir þá sem treysta sér ekki upp og niður stigana. Enn er lessalur fyrir námsmenn en hann er þó ekki jafn lokaður og áður var. Bækur eru geymdar í þeim sal en þó ættu námsmenn að geta lært þar án þess að verða fyrir mikilli truflun. „Þetta er auðvitað ennþá nýtt og á eftir að slípast. Skipulagið mun jafnvel breytast eitthvað en við reynum að taka tillit til viðskiptavina okkar þegar kemur að því,“ sagði Hulda að lokum.