Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 13. desember 2000 kl. 10:23

Nýja-bíó í Keflavík: Opnar nýjan og glæsilegan sýningarsal

„Salur 2 verður tilbúinn 19. desember en við hófum framkvæmdir 20. október sl. Þetta er alltaf svona þegar við förum á stað með eitthvað, þá fer allt á fullt“, segir Björn Árnason, framkvæmdastjóri Sam-bíóanna.
Nýi salurinn er staðsettur undir bíóhúsinu, þar sem skemmtistaðurinn Bergás var áður. Gólfið var rifið í burtu en einnig var nauðsynlegt að brjóta klöpp sem var undir skemmtistaðnum sáluga. Þegar búið var að riðja öllu í burtu var hægt að hefja byggingu salarins, sem gekk eins og fyrr segir, vonum framar.
Að sögn Björns hefur aðsókn að bíóinu fjórfaldast á sl. tveimur árum eftir að húsið var tekið í gegn. „Þegar við fluttum til Reykjavíkur árið 1982 og fórum út í harða samkeppni þar, drabbaðist bíóið í Keflavík niður. Aðsóknin var komin niður í 11 þúsund á ári en er nú komin upp í 40 þúsund á ári og þess vegna keppast bíóin í Reykjavík nú orðið, um að frumsýna myndirnar hér suðurfrá, því það borgar sig að sýna þær á sama tíma.“
„Með tilkomu nýja salarins getum við haldið nýlegum myndum lengur í sýningu í stað þess að þurfa að láta þær víkja mjög fljótlega fyrir nýjustu myndunum. Þá mun myndaúrvalið verða fjölbreyttara þegar fleiri myndir eru í gangi á hverjum tíma“, segir Björn.
Nýja bíó sýnir margar stórmyndir yfir hátíðirnar og fram í janúar. Það verða 3 nýjar myndir frumsýndar á 2. í jólum. Myndirnar sem um ræðir eru Unbreakable með Bruce Willis í aðalhlutverki, en sá sem leikstýrir henni er sá sami og gerði The Sixth Sense. Auk þess verða frumsýndar nýja grínmyndin hans Adam Sandler, Little Nicky og Pokemon 2, sú mynd verður sýnd með íslensku tali. Þá verður Walt Disney teiknimyndin Dinosaur sýnd áfram. Nýárs-frumsýningin í Keflavík verður The Family Man með Nicholas Cage, verður hún frumsýnd 5. janúar og má geta þess að þar er á ferðinni ein aðal jólamyndin í Bandaríkjunum og verður hún einungis 2 vikna gömul þegar hún kemur til Keflavíkur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024