Nýir útibússtjórar Landsbankans í Reykjanesbæ og Hafnarfirði
Arnar Hreinsson hefur verið ráðinn útibússtjóri Landsbankans í Reykjanesbæ og Berglind Rut Hauksdóttir hefur verið ráðin útibússtjóri Landsbankans í Hafnarfirði. Bæði búa yfir mikilli reynslu af bankaþjónustu en þau hafa unnið hjá Landsbankanum um margra ára skeið.
Arnar er með BA-próf í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands, M.Sc.-gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og M.Sc.-gráðu í stjórnmálafræði frá Aarhus Universitet í Danmörku. Hann er einnig löggiltur verðbréfamiðlari.
Arnar hóf störf í Landsbankanum árið 2000. Hann var m.a. sérfræðingur í markaðsdeild bankans, sérfræðingur í fyrirtækjaviðskiptum og forstöðumaður á sölu- og markaðssviði um tveggja ára skeið. Eftir samruna Landsbankans og SpKef stýrði Arnar um skeið fyrirtækjaþjónustu útibúsins í Reykjanesbæ. Arnar varð aðstoðarútibússtjóri í Hafnarfirði árið 2012 og tók við starfi útibússtjóra í Hafnarfirði í upphafi árs 2014. Hann tekur við stjórn útibús Landsbankans í Reykjanesbæ 15. desember nk.
Berglind Rut Hauksdóttir er með B.Sc.-gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri og lýkur brátt námi til vottunar sem fjármálaráðgjafi.
Berglind var fastráðin hjá Landsbankanum árið 1995, þá sem gjaldkeri í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Hún vann síðar í skuldabréfadeild útibúsins í Reykjanesbæ, sem þjónustufulltrúi og sérfræðingur í einstaklingsviðskiptum. Berglind tók við starfi aðstoðarútibússtjóra í Reykjanesbæ árið 2006 og mun taka við stjórn útibús Landsbankans í Hafnarfirði 15. desember nk.
Berglind Hauksdóttir fer til starfa hjá bankanum í Hafnarfirði.