NÝIR STJÓRAR
Eins og alltaf eru nýir menn að taka við af öðrum í hinum ýmsu störfum. Hér á Suðurnesjum kemur nýr forstöðumaður Miðstöðvar Símenntunar á Suðurnesjum 1. febrúar nk. en Kjartan Már Kjartansson sem gegndi starfinu síðastliðið og fyrsta ár stofnunarinnar hefur hafið störf sem gæðastjóri hjá Samvinnuferðum Landsýn. Kjartan mun starfa í Reykjavík en ætlar samt að búa áfram í Keflavík. Nýi maðurinn hjá Símenntun heitir Skúli Thoroddsen en eiginkona hans er Jórunn Tómasdóttir (Tómassonar úr Keflavík). Skúli ætlar að gera meira en að vinna hjá Símenntun því hann er einn frambjóðenda hjá samfylkingunni í Reykjaneskjördæmi og ætlar að taka þátt í prófkjörinu.Af öðrum stjórum má nefna nýjan framkvæmdastjóra verkefnisins „Reykjanesbær á réttu róli“. Hann heitir Eysteinn Eyjólfsson en kona hans er Dagný Gísladóttir skjalavörður hjá Reykjanesbæ og blaðakona í hlutastarfi hjá Víkurfréttum. Við sögðum frá nýjum flugvallarstjóra, Birni Inga Knútssyni, 36 ára Keflvíkingi, rétt fyrir jól en hann hefur nú hafið störf í Leifsstöð.