Nýir starfsmenn í félags- og skólaþjónustu Grindavíkur
Tveir nýir starfsmenn hafa verið ráðnir í félags- og skólaþjónustuna hjá Grindavíkurbæ í kjölfar skipulagsbreytinga sem gerðar voru í haust. Frá þessu er greint á vef Grindavíkurbæjar.
Sigrún Pétursdóttir er nýr starfsmaður hjá félagsþjónust-unni í Grindavík og hóf hún störf hinn 19. október sl. í 60% starfshlutfalli. Sigrún útskrifaðist með B.A. próf í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands árið 2009 og útskrifaðist sem PMTO meðferðaraðili árið 2014 og er þar með viðurkenndur sérfræðingur í PMTO meðferð og fræðslu. Hún mun einnig ljúka þjálfun í PMTO hópameðferð í desember nk. sem veitir réttindi til að sinna hópameðferð. Sigrún starfaði áður hjá félagsþjónustu Sandgerðisbæjar, Garðs og Voga sem verkefnastjóri í barnavernd og hefur víðtæka reynslu af þeim málaflokki, auk þess að hafa starfað í almennri félagsþjónustu um margra ára skeið. Meginverkefni Sigrúnar hjá félagsþjónustunni koma til með að vera vinnsla barnaverndarmála, úrvinnsla einstaklings- og fjölskyldumála, PMTO einstaklings- og fjölskyldumeðferð og vinna við fjárhagsaðstoð. Vinnutími Sigrúnar er á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum á skrifstofu félagsþjónustunnar, Víkurbraut 62, 3. hæð.
Sigurlína Jónasdóttir er nýr starfsmaður hjá skólaþjónustunni í Grindavík og hóf störf 16. nóvember sem leikskólafulltrúi og sérkennari hjá Grindavíkurbæ. Sigurlína flutti með fjölskyldu sinni til Grindavíkur nú um mánaðamótin. Menntun hennar er leikskóla- og grunnskólakennari með framhaldsnám í sérkennslu, opinberri stjórnsýslu og stjórnun menntastofnana. Sigurlína hefur starfað sem kennari, deildarstjóri, sérkennslustjóri og skólastjóri í leikskóla. Einnig hefur hún starfað s.l. 12 ár sem ráðgjafi í skólamálum hjá Ísafjarðarbæ. Hún hefur góða reynslu af ráðgjöf við stjórnendur og kennara skóla, lestrargreiningum og almennri stefnumótun í skólamálum. Hún sinnir sérkennslu í Hópsskóla mánudaga, fimmtudaga og föstudaga og er á skólaskrifstofu mánudaga, þriðjudaga, miðvikudaga og föstudaga. Föst viðvera í leikskólum er fyrsta og þriðja þriðjudag á Laut og annan þriðjudag á Króki.