Nýir lögreglubílar til Suðurnesja
Ríkiskaup, fyrir hönd ríkislögreglustjóra, hefur gert samning við Brimborg um kaup á sex Volvo V70 D4 Drive-E lögreglubílum í kjölfar útboðs. Allir bílarnir verða sérútbúnir lögreglubílar frá verksmiðju Volvo í Gautaborg í Svíþjóð. Bílarnir verða í notkun hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og lögreglunni á Suðurnesjum, að því er fram kemur í tilkynningu frá Brimborg.
Volvo lögreglubílarnir eru búnir kraftmikilli 181 hestafla dísilvél með 8 þrepa sjálfskiptingu sem skilar 400 Nm í togkraft. Lítil mengun og sparneytni einkennir þá en CO2 losun er aðeins 119 g/km og eyðsla í blönduðum akstri einungis 4,5 l/100 km.
„Þetta er í fyrsta skiptið sem lögreglan á Íslandi fær afhenta sérútbúna lögreglubíla beint frá bílaverksmiðju. Umbreytingarferlið hjá Volvo fyrir lögreglubíla tekur um 45 klukkustundir sem tryggir að þeir þola betur gríðarlegt álag m.a. í forgangsakstri.“ segir Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar.