Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Nýi skólinn heitir Stapaskóli
Tinna Rut Sigvaldadóttir og Hera Björg Árnadóttir taka hér skóflustungu að nýjum skóla í Reykjanesbæ sem fékk í framhaldi nafnið Stapaskóli. Áætlað er að fyrsti áfangi skólans verði tekinn í notkun haustið 2019. VF-myndir: Hilmar Bragi
Fimmtudagur 2. nóvember 2017 kl. 15:24

Nýi skólinn heitir Stapaskóli

Tinna Rut Sigvaldadóttir leikskólanemandi á Holti og Hera Björg Árnadóttir nemandi í Akurskóla Dalsbraut tóku í morgun skóflustungu að nýjum skóla við Dalsbraut í Innri Njarðvíkurhverfi. Skólinn mun heita Stapaskóli, en það varð niðurstaða bæjarráðs og fræðsluráðs eftir tillögum sem bárust í nafnasamkeppni sem fræðsluráð efndi til.

Niðurstaða undirbúningshóps sem skilaði skýrslu í júní árið 2016 var að byggður yrði heilstæður skóli sem yrði allt í senn, leik- og grunnskóli, frístunda- og tónlistarskóli, bókasafn, menningar- og félagsmiðstöð hverfisins. Með tímanum verður svo íþróttahús og sundlaug byggð við skólann. Að undangengnu útboði var ákveðið að taka tilboði Arkís arkitekta í verkið.

Skólinn mun heita Stapaskóli en nafnið var eitt af þeim 50 tilögum sem bárust frá 186 einstaklingum sem tóku þátt í nafnasamkeppni fræðsluráðs í október. Alls 28 einstaklingar sendu inn tillögu að nafninu Stapaskóli og flestir rökstuddu nafngiftina með því að skólinn væri í nálægð eða á Stapa/Vogastapa, auk þess sem nafnið væri stutt og þjált. Enginn annar skóli á Íslandi ber þetta nafn.

Nú þegar fyrsta skóflustunga hefur verið tekin mun jarðvegsverktakinn Karína ehf. hefjast handa við sína vinnu. Áætlað er að fyrsti áfangi skólans verði tekinn í notkun haustið 2019. Á svæðinu er nú starfræktur skóli í bráðabirgðahúsnæði sem útibú frá Akurskóla.

Sú mikla uppbygging sem nú er í skólum í Reykjanesbæ tengist þeirri miklu íbúafjölgun sem verið hefur að undanförnu. Íbúum hefur verið að fjölga allt upp í 8% milli ára sem kallar á mikla innviðauppbyggingu. Auk nýs skóla í Innri Njarðvík er unnið að stækkun Háaleitisskóla á Ásbrú og næsta sumar verður leiksskólinn Háaleiti einnig fluttur í nýtt og stærra húsnæði til að mæta vaxandi þörf á Ásbrú.

Síðasti skóli sem vígður var í Reykjanesbæ var Akurskóli undir lok árs 2005. Háaleitisskóli byggðist svo upp eftir brotthvarf hersins árið 2006 í skólahúsnæði á gamla varnarsvæðinu og var fyrst um sinn rekinn sem útibú frá Njarðvíkurskóla. Sá leikskóli sem vígður var síðast var Vesturberg, á haustmánuðum 2008.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024