Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

 Nýársbarnið lét bíða eftir sér
Þriðjudagur 5. janúar 2010 kl. 20:33

Nýársbarnið lét bíða eftir sér

Nýársbarnið á Suðurnesjum þetta árið lét sannarlega bíða eftir sér. Það var ekki fyrr en á fjórða degi ársins sem fyrsta barnið á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja kom í heiminn, lítil og sæt stúlka sem mældist 47 sentimetrar við fæðingu og vigtaði 3.090 gr.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Foreldrarnir eru alsælir með litlu stúlkuna en þeir eru Guðrún Ólöf Björnsdóttir og Arnar Freyr Héðinsson. Það sama má segja um stóra bróður, Óðinn Fannar Guðrúnarson, sem var himinlifandi yfir því að hafa fengið litla systur.

Það var Anna Rut Sverrisdóttir ljósmóðir sem tók á móti stúlkunni í venjulegri fæðingu, ef svo má að orði komast, því á fæðingardeildinni í Keflavík fæddust 74 börn í vatnsfæðingum á síðasta ári eða 27% þeirra barna sem fæddust á HSS.


Nýliðið ár er metár í fæðingum í langan tíma en 273 börn fæddust á árinu 2009. Þar af voru 145 stúlkur og 128 drengir.

Fæðingum hefur farið fjölgandi á HSS á liðnum árum eftir talsverða lægð fyrir tæpum áratug. Hins vegar þarf að fara aftur til áranna upp úr 1990 til að sjá tölur yfir 300 börn. Íbúum Suðurnesja hefur fjölgað hratt og þar vegur þungt íbúabyggðin á Ásbrú í Reykjanesbæ, þar sem ungir og sprækir íbúar eru duglegir að geta af sér börn á milli þess sem þeir liggja yfir námsbókum.

Efri myndin: Nýbakaðir foreldrar með nýársbarnið 2010 og stóra bróður, sem var ánægður með litlu systur þegar ljósmyndari tók af þeim mynd. Víkurfréttamynd: Hilmar Bragi Bárðarson

Nýársbarnið 2010 á Suðurnesjum. Mynd af vef HSS.