Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ný viðbygging við Íþróttamiðstöð Njarðvíkur opnuð
Miðvikudagur 15. desember 2004 kl. 16:01

Ný viðbygging við Íþróttamiðstöð Njarðvíkur opnuð

Glæsileg félagsaðstaða UMFN var opnuð í nýrri viðbyggingu Íþróttamiðstöðvar Njarðvíkur í gær að loknum umfangsmiklum endurbótum sem fram hafa farið á öllu húsinu að utan sem innan.
Þeir sem nýta munu aðstöðuna eru aðalstjórn UMFN, körfuknattleiksdeild þ.m.t. unglingaráð og kvennaráð innan deildarinnar, sunddeild og líkams- og lyftingadeildin Massi. Knattspyrnudeildin mun nýta aðstöðuna til fundahalda o.fl.


Skrifstofu og fundaaðstaða auk móttöku
Í félagsaðstöðunni sem er 470 m2 eru m.a. fjölnota fundasalur með eldhúsi, salur til móttöku íþróttahópa, skrifstofurými fyrir félagsstarf ásamt fundaraðstöðu og starfsaðstöðu forstöðumanns. Boðið verður upp á möguleika til þess að fylgjast með leikjum á breiðtjaldi í Boganum, sem nefndur hefur verið eftir Boga Þorsteinssyni sem oft hefur verið kallaður faðir körfunnar í Njarðvík. Bogi var m.a.fyrsti formaður Körfuknattleikssambands Íslands. Í Boganum verður m.a.móttaka fyrir stuðningsmenn auk þess sem hægt verður að skoða upptökur af leikjum.
Rætt hefur verið um mögulega nýtingu á salnum og öðrum húsakynnum fyrir Frístundaskóla Reykjanesbæjar og Njarðvíkurskóla.


Endurbætur í kjallara
Að auki hafa farið fram viðamiklar endurbætur í kjallara Íþróttamiðstöðvarinnar og má þar nefna nýtt loftræsikerfi, stækkun þreksalar og endurnýjun á flestum lögnum. Allt aðgengi er nú bjartara og opnara t.a.m. í afgreiðslu og anddyri. Framundan eru lokaframkvæmdir við bætta aðstöðu starfsfólks og verður þeim lokið á næsta ári.
Íþrótta- og ungmennafélagið Njarðvík valdi vígsludaginn í tilefni heimsóknar frá körfuknattleiksliði Keflavíkur en þeir áttu leik í meistaraflokki karla í gærkveldi þar sem Keflavík fór með sigur af hólmi. Við sama tækifæri minntist UMFN 60 ára afmælis félagsins og bauð gestum upp á kaffi og afmælisköku.
Til gamans má geta að þennan sama dag, 14. desember árið 1959 afhentu landeigendur UMFN afsal að lóð fyrir félagsheimili þeirra í Stapanum.


Framkvæmdir
Undirbúningur verksins hófst vorið 2003 með útboði á viðgerð hússins utanhúss sem þá hafði verið í undirbúningi um nokkurt skeið. Haustið 2003 hófst síðan hönnun nýrrar félagsaðstöðu í húsinu í nánu samstarfi við stjórn UMFN og lauk henni í febrúar 2004.
Arkitekt hússins er Jes Einar Þorsteinsson en Teiknistofa Halldórs Guðmundssonar vann tillögur að breytingum innanhúss í samstarfi við arkitekt hússins.

Verkfræðistofa Suðurnesja hannaði breytingar á lögnum. Fjarhitun hannaði endurbætur og breytingar á loftræstingu. Rafmiðstöðin hannaði breytingar og endurbætur á raflögnum. Verkefnisstjórn og eftirlit með framkvæmdum hefur verið í höndum Teiknistofu Halldórs Guðmundssonar og Tækniþjónustu Sigurðar Ásgrímssonar.

Útboð á utanhússviðgerð hússins fór fram vorið 2003 og reyndist tilboð ÍAV lægst. Utanhússviðgerðin fólst í endurnýjun og viðgerð á gluggum, þaki félagsálmu hússins ásamt einangrun, múrhúðun og steiningu alls hússins að utan. Vegna veðurs tókst ekki að ljúka utanhússviðgerðinni haustið 2003 eins og til stóð og lauk því verki í sumar. Þegar hönnun á félagsmiðstöð lauk í febrúar sl. var samið við ÍAV um innréttingu hennar og að ljúka endurbótum og löngu tímabærum viðhaldsaðgerðum á húsinu.

Texti: Reykjanesbaer.is VF-mynd: Gilsi

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024