Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ný upplýsinga- og fræðsluskilti í Grindavík
Fræðsluskilti við höfnina. Þarna geta ferðamenn fræðst um starfsemi Grindavíkurhafnar og séð myndir af algengum fisktegundum sem landað er í höfninni um leið og hægt er að sjá landað úr smábátunum. Mynd af vef Grindavíkurbæjar.
Miðvikudagur 4. júlí 2012 kl. 17:07

Ný upplýsinga- og fræðsluskilti í Grindavík

Í sumar hafa verið sett upp upplýsinga- og fræðsluskilti, upplýsingastaurar og myndir víða um Grindavík. Þetta er liður í því að styrkja innviði ferðaþjónustunnar í Grindavík. Aðilar í ferðaþjónustu og verslun og þjónustu segja að talsverð aukning ferðamanna hafi verið í bænum í sumar. Þetta kemur einnig fram í aðsókn á tjaldsvæðinu sem hefur verið vel sótt í sumar.

Upplýsinga- og fræðsluskilti hafa verið sett upp á nokkrum stöðum við höfnina og innsiglinguna, á Lágafelli, sunnan og norðan megin við Þorbjarnarfell og víðar þar sem er m.a. að finna kort af gönguleiðum í nágrenninu. Ýmsir aðilar hafa komið að gerð texta, mynda og korta á þessum skiltum. Upplýsinga- og fræðsluskiltin eru mjög vegleg og framleidd samkvæmt nýjum stöðlum frá Ferðamálastofu. Áfram verður unnið að þessum málum, sérstaklega hvað varðar innkomuskilti í bæinn.

Þá hafa verið settir niður upplýsingastaurar (vegvísar) víða um bæinn til að auðvelda ferðamönnum að rata um bæinn.

Þá hafa Þorbjörn hf., Gjögur hf. og Grindavíkurbær í sameiningu sett upp skemmtilega myndaröð á grindverk við Seljabót sem vakið hefur athygli. Um er að ræða 19 stórar myndir sem sýna lífið við höfnina á síðustu öld. Flestar myndirnar eiga Ólafur Rúnar Þorvarðarson og Snorri Snorrason. Við myndirnar er fróðlegur texti bæði á íslensku og ensku.

Fleiri myndir og nánari upplýsingar um skiltin má nálgast hér.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024