NY Times: Þoturnar fara frá Keflavík
Orustuþotur Bandaríkjahers gætu verið á leið frá Keflavíkurflugvelli innan skamms.
Samkvæmt fréttum NY Times hefur varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna lagt fram áætlun um stórtækustu endurskipulagningu á herafla sínum, sem er staðsettur um heim allan, frá upphafi kalda stríðsins.
Í þessum áætlunum er gert ráð fyrir að bandarískir hermenn og flugsveitir verði fluttir frá Þýskalandi og Bretlandi til heimalandsins eða nær átakasvæðunum í Mið-Austurlöndum.
Þá verði allar F-15 þotur hersins sem staðsettar eru á Íslandi fluttar burt og með því væri rekstarargrundvöllur varnarliðsins í raun horfinn.
Þessi frétt er í samræmi við þær fréttir sem hafa verið í kringum starfsemi Varnarliðsins síðustu misseri þar sem orðrómur af þessari tegund hefur komið upp á yfirborðið.
Þó er tekið fram í umfjölluninni að enn hafi engin ákvörðun verið tekin og er því ekki útséð með framhaldið.
„Það er ekki búið að taka neina ákvörðun í þessum efnum“, sagði Friðþór Eydal, upplýsingafulltrúi Varnarliðsins, í samtali við Víkurfréttir og bætti því við að slíkir hlutir væru á viðræðustigi við íslensk stjórnvöld.
Víkurfréttir höfðu einnig samband við utanríkisráðuneytið, en ráðuneytisstjóri var vant við látinn.
VF-mynd/Úr safni