Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ný slökkvistöð rís í Reykjanesbæ
Núverandi slökkvistöð Brunavarna Suðurnesja.
Fimmtudagur 29. september 2016 kl. 16:06

Ný slökkvistöð rís í Reykjanesbæ

Ný slökkvistöð mun rísa í Reykjanesbæ ofan Keflavíkur. Stjórn Brunavarna Suðurnesja byggðasamlags er einhuga um málið. Sótt hefur verið um lóð undir slökkvistöðina að Flugvöllum 29, sem er gata sem verður ofan við Iðavelli í Keflavík. Slökkvistöðin verður á lóð sem stendur næst Aðalgötu.

Staðsetning slökkvistöðvarinnar á þessum stað er talin mjög góð. Stöðin sé miðsvæðis þegar horft er til þjónustusvæðis Brunavarna Suðurnesja sem nær frá Reykjanesbæ, í Sandgerði, Garð og Voga. Þá er stutt í flugstöðina en sjúkraflutningum í tengslum við aukinn ferðamannastraum til landsins fjölgar hratt.

Jón Guðlaugsson, slökkviliðsstjóri BS, segir í samtali við Víkurfréttir að hönnunarvinna í tengslum við bygginguna hefjist á næstu vikum. Gert sé ráð fyrir að nota veturinn í hönnun og undirbúning og að framkvæmdir við byggingu stöðvarinnar geti hafist næsta sumar. Þá á deiliskipulagi að vera lokið á byggingarsvæðinu og hægt verður að leggja götuna Flugvelli. Hún mun liggja ofan við Iðavelli á milli Aðalgötu og Þjóðbrautar. Vonast er til að slökkvistöðin verði svo tekin í notkun vorið 2018.

Jón segir að ekki liggi fyrir kostnaður við byggingu slökkvistöðvarinnar en húsnæði Brunavarna Suðurnesja við Hringbraut í Keflavík verður selt upp í byggingarkostnað.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024