Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ný skólastefna kynnt í Vogum
Miðvikudagur 7. apríl 2010 kl. 09:07

Ný skólastefna kynnt í Vogum


Bæjaryfirvöld í Vogum kynna nú nýja skólastefnu sem samþykkt var fyrir skemmstu en hún hefur verið í undirbúningi frá haustinu 2008. Stefnan er afmörkuð við grunnskóla, leikskóla og frístundastarf í sveitarfélaginu með áherslu á lifandi tengslum við nærsamfélagið.

Sérstök verkefnastjórn var skipuð til að vinna skólastefnuna og hafði hún sér til fulltingis samráðshóp sem skipaður var fulltrúum foreldra, nemenda, starfsmanna og ungmennaráðs. Auk þess var leitað til annarra íbúa sem lögðu fram hugmyndir og tóku þátt í umræðum á átta opnum fundum.

Í skólastefnunni eru sett fram markmið og hugmyndir til að framfylgja þeim. Stefnan er þríþætt undir yfirskriftinni samvinna – víðsýni – vellíðan.
Í skóla- og tómstundastarfi verður lögð áhersla á að kynna samfélagið nemendum á jákvæðan hátt. Einnig á nýsköpun, frumkvæði og skapandi gagnrýna hugsun. Þá er kveðið á um mikilvægi þess að skapa gott starfsumhverfi og hvatt til starfsþróunar, svo drepið sé á því helsta sem fram kemur í nýju skólastefnunni.

Verið að er að prenta bækling þar sem stefnan er kynnt nánar og verður honum dreift í sveitarfélaginu.

Þá má geta þess að bæjaryfirvöld hafa ákveðið að ráðast í mótun atvinnustefnu fyrir sveitarfélagið og verður vinna við hana með sama sniði og við mótun skólastefnunnar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024