Ný skjálftahrina í Krýsuvík
Önnur hrina af jarðskjálftum varð á Krýsuvíkursvæðinu í kvöld og hafa fjölmargir skjálftar komið fram á mælum Veðurstofu Íslands á svæðinu. Eins og greint var frá í dag þá hafa jarðvísindamenn fylgst grannt með skjálftahrinum og landrisi við Krýsuvík og hafa upplýst almannavarnir um þróun mála. Aukinn þrýsingur í jarðskorpunni þar undir er talinn geta stafað annaðhvort af kvikuinnstreymi eða breytingum í jarðhitakerfum.
Jarðskjálftahrina með um 40 smáskjálftum varð í Krýsuvík í nótt en skjálftahrinur hófust á ný á svæðinu í haust eftir rólegan tíma fyrr á árinu. Nokkrir skjálftar voru í dag en síðan hefur þeim fjölgað nú í kvöld og núna rétt um kl. 22 voru tveir skjálftar, annar 1,8 stig og hinn 1,5 stig á Richter. Fyrr í kvöld varð svo skjálfti upp á 1,9 stig en flestir eru skjálftarnir NNA af Krýsuvík.
Myndefni af vef Veðurstofu Íslands.