Ný samningur um Sóknaráætlun Suðurnesja
Nýir sóknaráætlanasamningar við átta landshlutasamtök sveitarfélaga voru undirritaðir í dag. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra og fulltrúar landshlutasamtakanna undirrituðu samningana átta við hátíðlega athöfn í Ráðherrabústaðnum. Grunnframlag ríkisins til samninganna árið 2020 nemur 716 milljónum króna en með viðaukum og framlagi sveitarfélaga nema framlög alls 929 milljónum króna. Framlagið til Suðurnesja fyrir árið 2020 verður 84 millj. frá tveimur ráðuneytum og svo bæta sveitarfélögin á Suðurnesjum við 9 milljónum þannig að heildarupphæðin til úthlutunar er 93 milljónir króna.
Samningarnir byggja á lögum nr. 69/2015 um byggðaáætlun og sóknaráætlanir og gilda til fimm ára, 2020-2024. Markmið laganna er að efla byggðaþróun og auka samráð milli ráðuneyta á sviði byggðamála, innan hvers landshluta og milli stjórnsýslustiga, jafnframt að færa til sveitarstjórna aukna ábyrgð á sviði byggða- og samfélagsþróunar.
Sóknaráætlanir landshluta eru þróunaráætlanir sem fela í sér stöðumat viðkomandi landshluta, framtíðarsýn, markmið og aðgerðir til að ná þeim markmiðum. Markmiðið er að ráðstöfun þeirra fjármuna sem varið er til verkefna í einstökum landshlutum á sviði samfélags- og byggðamála byggi á áherslum heimamanna.
„Sóknaráætlanir eru öflugt tæki sem heimamenn í hverjum landshluta geta beitt til að efla blómlegar byggðir um land allt. Hugmyndafræði sóknaráætlana gengur út á að ná fram betri nýtingu fjármuna og færa ákvarðanatöku nær heimamönnum sem þekkja best til aðstæðna. Þær hafa sannað gildi sitt en grunnhugsunin er valdefling landahluta er byggi á stefnumótun, áherslum og áætlanagerð þeirra,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.