Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ný nálgun á íbúalýðræði í Sandgerði
Miðvikudagur 25. nóvember 2009 kl. 12:06

Ný nálgun á íbúalýðræði í Sandgerði


Þrátt fyrir að hafa þurft tekjuaukningu upp á 20 milljónir króna og niðurskurð upp á 80 milljónir sjá bæjaryfirvöld í Sandgerði fyrir sér framkvæmdir upp á 137 milljónir króna á næsta ári samkvæmt nýrri fjárhagsáætlun sem meirihlutinn og minnihlutinn hafa unnið að í sameiningu. Hefur það samstarf gengið vel, að sögn Sigurðar Vals Ásbjarnarsonar, bæjarstjóra.
Bæjarbúar geta haft áhrif á það í hvaða framkvæmdir verður ráðist með þátttöku í skoðanakönnun sem hrint hefur verið af stað á vefnum 245.is.

„Það er nokkuð ljóst að reksturinn er erfiður, aðallega vegna breytinga á verðlagsforsendum og öll aðföng eru orðin dýrari. Það hefur orðið til þess að allir deildarstjórar hafa sest yfir sinn rekstur og komið fram með tillögur sem meiri- og minnihlutinn er að vinna úr,“ sagði Sigurður Valur í samtali við VF í morgun en bæjarráð kom saman til fundar í gær til að ræða áætlunina. Vinna við hana er langt á veg komin og verður hún lögð fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn á næstunni.

Aðspurður segir Sigurður Valur engan núning hafa verið í samstarfinu, ákveðið hafi verið í upphafi að hafa allt uppi á borðum og allar hugmyndir yrðu ræddar ofan í kjölin.

„Það var alveg á ljóst á miðju síðustu ári að við þyrftum að auka tekjur bæjarfélgasins um 20 milljónir og það þyrfti að draga úr rekstri um 80 milljónir. Miðað við þær forsendur sem við gefum okkur núna þá bendir allt til þess að við náum meginmarkmiðunum og verðum þrátt fyrir það í framkvæmdum fyrir um 137 milljónir á næsta ári, segir Sigurður Valur.

Í fyrstu umferð var gerður listi og verðmat yfir þau verkefni sem bæjaryfiröld töldu æskilegast að ráðast í. Að því búnu var sett upp skoðanakönnun á bæjarfréttavefnum 245.is þar sem verkefnunum er skipt í þrjá flokka og geta bæjarbúar valið eitt verkefni úr hverjum þeirra.
Með þessu er verið að virkja íbúalýðræði með nýrri nálgun þar sem fólk hefur lítinn tíma til að sitja fundi. Bæjaryfirvöld munu síðan endurskoða verkefnalistann með tilliti til þess hver niðurstaðan úr könnuninni verður.

Stærsti liðurinn á verkefnalista bæjarfélagsins er stækkun Miðhúsa sem áætlað er að muni kosta 42,5  milljónir og verður boðið út fljótlega eftir áramót.
Þá er hringtorg á mótum Byggðavegar og Heiðarvegar við innkomuna í bæinn talið geta kostað 25 milljónir króna. Einnig þarf að ljúka við kaup á búnaði og húsgögnum í nýjan grunnslóla fyrir um 15 milljónir jafnframt því að ganga frá lóð kringum hann. Þá er frágangur við íþróttasvæðið, sjóvarnir við höfnina og leiksvæði á verkefnalistanum svo nokkuð sé nefnt. +

---

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

VFmynd/Ellert Grétarsson - Frá Sandgerði.