Ný leigubílastöð í undirbúningi á Suðurnesjum
-Leigubílstjórar ósáttir við nýja eigendur Aðalbíla
Mögulegt er að ný leigubílastöð verði stofnuð á Suðurnesjum á næstu vikum. Bílstjórar sem eru ósáttir við nýja eigendur hafa sent inn uppagnarbréf og hyggja á að stofna sína eigin stöð.
Nokkur styr hefur staðið um leigubílamarkaðinn á Suðurnesjum síðustu tvær vikur eftir að Nýja leigubílastöðin festi kaup á rekstri Aðalbíla í Reykjanesbæ.
Bílstjórum félagsins var brugðið vegna þess hve stuttur aðdragandi var að sölunni og hugnast þeim heldur ekki samstarf með nýjum eigendum stöðvarinnar.
Ingólfur Jónsson er formaður Fylkis, félags leigubílstjóra á Aðalbílum, og sagði hann í samtali við Víkurfréttir að fyrstu viðbrögð bílstjóra við fregnunum um að stöðin hafi verið seld hafi verið sárindi yfir að hafa ekki fengið að vera með í ráðum þegar eigendur Aðalbíla, Ný Ung ehf., ákváðu að selja reksturinn.
„Við hófum samstarf við feðgana fyrir 4 árum og sömdum fyrst til 3ja ára og svo fyrir ári síðan til fimm ára í viðbót og það virtist allt í góðum málum,“ sagði Ingólfur. Hann bætir því við að allir bílstjórarnir hafi sent inn uppsögn sem muni taka gildi 1. maí nk. „Það er alger einhugur um þetta. Leigubílstjórar eru þannig stétt að við höfum aldrei staðið saman um neitt, en nú þegar eitthvað svona gerist snúum við bökum saman og segjum: við ætlum ekki að láta vaða yfir okkur.“
Ekki hefur farið framhjá neinum að ástandið á leigubílamarkaðnum á Suðurnesjum versnaði eftir að svæðið var sameinað höfuðborgarsvæðinu haustið 2005. Ingólfur segir að um 25 bílstjórar séu að hætta hjá Aðalbílum. Hann er viss um að þjónusta á svæðinu muni aukast ef bílstjórarnir taka sig saman um að stofna nýja stöð. Undirbúningur sé þegar hafinn en muni fara á fullt þegar líður að þeim degi sem uppsagnirnar taka gildi. „Við munum einnig sækja það fast að fá með okkur númerið 421-1515, sem hefur fylgt Aðaltöðinni og síðar Aðalbílum frá árinu 1948.“
Einar Ágústsson, framkvæmdastjóri Nýju Leigubílastöðvarinnar, vísar áhyggjum leigubílstjóra á bug og segir ekkert munu breytast í rekstri stöðvarinnar nema að hún muni eflast ef nokkuð er. „Þetta verður allt óbreytt. Hluti af bílstjórunum hefur ákveðið að vera áfram hjá okkur og ef aðrir kjósa eitthvað annað þá gera menn það.“
Einar bætir því við að uppsagnarfrestur bílstjóra á stöðinni sé sex mánuðir, sem stangast á við orð Ingólfs um eins mánaðar frest, en Einar telur ótvírætt að samningur styðji mál hans. Ingólfur segir á móti að sá samningur sem bílstjórar gerðu við Ný Ung falli niður með eigendaskiptum.
„Við ætlum að tryggja að hér á Suðurnesjum verði sterk leigubílastöð. Við ætlum að bæta þjónustu um nætur og helgar og tryggja hagsmuni bæjarfélagsins, fyrirtækisins og leigubílstjóra,“ sagði Einar að lokum.