Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ný könnun fyrir Víkurfréttir: Sjálfstæðisflokkurinn enn með yfirburði
Fimmtudagur 18. maí 2006 kl. 09:03

Ný könnun fyrir Víkurfréttir: Sjálfstæðisflokkurinn enn með yfirburði

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 68,6% fylgi í nýrri skoðanakönnun sem Félagsvísindastofnun hefur gert fyrir Víkurfréttir. A-listinn mælist með 23,5% fylgi. Vinstri Grænir koma sterkir inn og bæta miklu við sig frá síðustu könnun og mælast nú með 4,3%, Frjálslyndir fá 2,2% og Reykjanesbæjarlistinn 1,4% fylgi. Þetta eru tölur miðað við þá sem tóku afstöðu í könnuninni.

Litlar breytingar eru á þessari könnun frá þeirri sem birtist í Fréttablaðinu á sunnudaginn nema sem snýr að Vinstri Grænum sem eru farnir að nálgast það að ná manni inn. Sjálfstæðisflokkurinn væri samkvæmt þessum niðurstöðum með átta bæjarfulltrúa af ellefu en þeir mælast með 2% minna fylgi en í skoðanakönnun FB. A-listinn fengi þrjá bæjarfulltrúa en fylgi hans helst nokkuð jafnt. Aðrir flokkar ná ekki inn manni samkvæmt þessu.

Könnunin fór fram dagana 10. - 13. maí og stuðst var við 600 manna úrtak 18 ára og eldri. Svarhlutfall í könnuninni var 65%. Tæp 11% svarenda sögðust ekki ætla að kjósa eða skila auðu eða ógildu. Rúm 5% svarenda voru óákveðnir en 13% neituðu að gefa upp afstöðu sína.

Ef eingöngu tekið er mið af heildarhlutfalli þeirra sem taka afstöðu í könnuninni þá eru 48,5% fylgjandi Sjálfstæðisflokknum, en 16,6% A-listanum. 3,1% fylgja Vinstri Grænum, Frjálslyndir fá 1,5% og Reykjanesbæjarlistinn 1,0%.

Miðað við úrslit síðustu kosninga er fylgisaukning Sjálfsstæðisflokksins upp á tæp 16% en hann fékk 52,8% í kosningunum 2002. Ef tekið er mið af því fylgi sem Samfylking og Framsóknarflokkurinn, sem nú mynda A-listann, höfðu sameiginlega í síðustu kosningum nemur fylgistap þeirra tæpum 24% en samanlagt fylgi þeirra nam 47,2% í kosningunum síðast.


Eigum eftir að bæta meiru við okkur
-segir Sigurður Eyberg, oddviti Vinstri Grænna
„Mér líst vel á þetta og er viss um að við eigum eftir að bæta enn meira við okkur”, sagði Sigurður Eyberg, oddviti Vinstri Grænna um skoðanakönnunina. „Þetta er í rétta átt og við finnum mikinn meðbyr enda held ég að málefnin sem við stöndum fyrir séu það heilbrigð og góð að þau höfði til margra”, sagði Sigurður ennfremur.

Ótrúlegt
-segir Árni Sigfússon, oddviti D-lista.
„Þetta er mjög ánægjulegt og reyndar ótrúlegt að þessar tölur séu að koma upp úr hverri skoðanakönnuninni á fætur annarri. „Ég minni á að þetta er skoðanakönnun og hvet bæjarbúa til að sýna þessa samstöðu, í kjörklefanum laugardaginn 27. maí “, sagði Árni Sigfússon, oddviti Sjálfstæðismanna um skoðanakönnunina.

Ekki ánægð
-segir Reynir Valbergsson, bæjarstjóraefni A-listans.
„Við á A-Listanum eru ekki ánægð með þessa niðurstöðu og það er ljóst að ef þetta verður niðurstaðan á kjördag þá verður erfitt fyrir okkur að veita sjálfstæðisflokkunum nauðsynlegt aðhald á næsta kjörtímabili. Við erum ansi hrædd um að við missum fólk úr nefndum og ráðum með þessu áframhaldi sem er ekki gott fyrir lýðræðislega umfjöllun og afgreiðslu mála”, sagði Reynir Valbergsson um viðbrögð sín við skoðanakönnuninni.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024