Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ný hitaveita á Vatnsleysuströnd
Miðvikudagur 2. júní 2010 kl. 14:13

Ný hitaveita á Vatnsleysuströnd

Athafnamaðurinn Jakob Árnason hélt á dögunum fund með íbúum á Vatnsleysustrandar (Strandaringum) þar sem hann kynnti áform um væntanlega hitaveitu. Eins og við greindum frá í vetur lét Jakob bora eftir heitu vatni á Auðnum, landareign sinni á Vatnsleyuströnd. Fundurinn var vel sóttur og er greinilegt að Strandaringar eru mjög áhugasamir um þetta verkefni en þeim hefur ekki staðið hitaveita til boða áður. Lögn Hitaveitu Suðurnesja endar við Nesbú.

Jakob gat þess á fundinum að hann hefði hvarvetna mætt miklum velvilja við undirbúninginn. Þó væri einn aðili sem hefði ekki lagt stein í götu verkefnisins heldur grjót, eins og Jakob orðaði það, og átti hann þar við sveitarfélagið Voga.
Jakob nefndi dæmi í þessu sambandi að hvergi væri þess getið á heimasíðu sveitarfélagsins að heitt vatn hafi fundist í sveitarfélaginu. Þetta væri stórfrétt í litlum sveitarfélögum út á landi. Vonaðist Jakob eftir því að sveitarstjórnarmenn vöknuðu til lífsins og sýndu verkefninu áhuga.
Ef vel gengur verður þess ekki langt að bíða að ný hitaveita, Auðnaveita, hefji starfsemi
sína á Suðurnesjum. Til stóð að hefja dælingu úr holunni núna í vikunni en það frestast um nokkra daga af tæknilegum orsökum.



Tengd frétt:
Heitt vatn fundið á Vatnsleysuströnd – dugar til að hita upp 500 heimili

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024