Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ný heilsugæslustöð í Reykjanesbæ tekur til starfa næsta haust
Fimmtudagur 2. mars 2023 kl. 13:49

Ný heilsugæslustöð í Reykjanesbæ tekur til starfa næsta haust

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, hefur staðfest nýgerðan samning Sjúkratrygginga Íslands og Heilsugæslunnar Höfða ehf. um rekstur nýrrar heilsugæslustöðvar við Aðalgötu 60 í Reykjanesbæ. Þetta verður fyrsta sjálfstætt starfandi heilsugæslustöðin utan höfuðborgarsvæðisins. Áætlað er að hún taki til starfa 1. september næstkomandi. Þetta kemur fram á vef stjórnarráðsins.

Opnun nýrrar heilsugæslustöðvar í Reykjanesbæ er í samræmi við áherslur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Þar er kveðið á um að heilsugæslan verði styrkt enn frekar sem fyrsti viðkomustaður notenda, þjónustan aukin og heilsugæslustöðvum fjölgað. Í stjórnarsáttmála er einnig lögð áhersla á þverfaglega teymisvinnu og er sérstaklega kveðið á um það í samningnum með það að markmiði að efla einstaklingsmiðaða þjónustu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Gert er ráð fyrir að þeir sem kjósa að nýta sér þjónustu nýju heilsugæslustöðvarinnar skrái sig þar sjálfir og veiti samþykki fyrir flutningi sjúkraskrárgagna eftir því sem það á við. Samhliða verður viðkomandi skráður af þeirri heilsugæslustöð sem hann tilheyrði áður.

Samningur Sjúkratrygginga Íslands og Heilsugæslunnar Höfða ehf. er til fimm ára með möguleika á framlengingu. Ríkið leggur til húsnæðið undir starfsemina. Rekstur heilsugæslustöðvarinnar verður fjármagnaður á grundvelli fjármögnunarlíkans heilsugæslu á landsbyggðinni. Í fjármögnunarlíkaninu eru gerðar skýrar og samræmdar kröfur til þjónustuveitenda og þannig leitast við að gæta jafnræðis milli rekstraraðila. Tilgangur fjármögnunarlíkansins er jafnframt að auka gæði og skilvirkni með það að markmiði að grunnheilbrigðisþjónusta sé í meira mæli veitt á heilsugæslustöðvum.

Opnun stöðvarinnar mætir aukinni þörf á heilbrigðisþjónustu við bæjarbúa og hefur verkefnið verið unnið í samráði við HSS. Í undirbúningi er einnig bygging nýrrar heilsugæslustöðvar í Innri Njarðvík. Deiliskipulag vegna þeirrar uppbyggingar hefur þegar verið samþykkt og ráðgert að bjóða verkið út í sumar.