Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ný heilsugæslustöð í Innri-Njarðvík tilbúin í árslok 2024
Miðvikudagur 9. júní 2021 kl. 16:45

Ný heilsugæslustöð í Innri-Njarðvík tilbúin í árslok 2024

Heilbrigðisráðherra hefur tekið ákvörðun um byggingu nýrrar heilsugæslustöðvar í Innri-Njarðvík í Reykjanesbæ sem á að þjóna um 15.000 íbúum. Húsnæði stöðvarinnar verður um 1.350 fermetrar. Ríkissjóður fjármagnar framkvæmdina að fullu en Reykjanesbær leggur til lóðina og liggur fyrir ákvörðun um að heilsugæslustöðin verði reist við Tjarnarbraut/Njarðarbraut. 

„Mikil þörf er á bættri aðstöðu fyrir heilsugæsluþjónustu á svæðinu því naumur húsakostur stendur þjónustunni fyrir þrifum og hefur þurft að sinna hluta heilsugæsluþjónustunnar í bráðabirgðaaðstöðu við sjúkrahús Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Síðustu ár hefur íbúum í Reykjanesbæ fjölgað langt umfram spár, eða um 6% á ári að jafnaði. Núverandi heilsugæslustöð í Reykjanesbæ er starfrækt í 730 fermetra húsnæði sem hýsir læknamóttöku, hjúkrunarmóttöku, heilsueflandi móttökur, heilsugæsluvakt, ungbarnavernd og sykursýkismóttöku. Til viðbótar er hluti starfseminnar á sjúkrahúsinu á um 112 fermetrum. Þessari aðstöðu er ætlað að þjóna um 22.000 íbúum sem skráðir eru hjá heilsugæslu Reykjanesbæjar. Samkvæmt frumathugun Framkvæmdasýslu ríkisins er nauðsynlegt að ný heilsugæslustöð geti þjónustað að lágmarki 15.000 íbúa, til viðbótar núverandi heilsugæslustöð þar sem sinna má um 8.000 íbúum. Þá verði sú þjónusta sem nú er veitt inni á sjúkrahúsinu færð inn á heilsugæslustöð þar sem hún á heima,“ segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Áætlaður kostnaður við byggingu nýrrar heilsugæslustöðvar í Innri-Njarðvík nemur rúmum 1,0 milljarði króna. Áformað er að ráðast í alútboð á framkvæmdinni en þannig má m.a. gera ráð fyrir skemmri framkvæmdatíma. Miðað er við að hægt verði að taka nýja heilsugæslustöð í notkun í lok árs 2024.

Eins og kom fram nýlega hefur Bæjarstjórn Reykjanesbæjar skorað á ráðherra að leysa bráðan vanda heilsugæslunnar með því að opna aðra í bráðabirgðahúsnæði við Aðaltorg í Reykjanesbæ. Ráðherra hefur ekki svarað þeirri áskorun bæjarstjórnar. Verði ekki af því munu Suðurnesjamenn þá þurfa að bíða í þrjú og hálft ár eftir nýrri heilsugæslustöð.