Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ný hárgreiðslustofa opnar á Hafnargötu
Laugardagur 24. ágúst 2013 kl. 09:49

Ný hárgreiðslustofa opnar á Hafnargötu

Naglameðferðir einnig í boði, spennandi hárvörur og umhverfisvænar hármeðferðir

Nýverið opnaði hárgreiðslustofan Zenso á Hafnargötu 26. Keflvíkingurinn Birgitta Ösp Atladóttir flutti heim til Reykjanesbæjar í fyrra en hún hafði verið búsett erlendis í nokkur ár. Birgitta lærði hárgreiðslu í Reykjavík og flutti svo til Danmerkur. Þar opnaði hún sína eigin stofu og rak hana í 5 ár ásamt vinkonu í hliðargötu út frá Strikinu. Eftir búsetu erlendis í nokkur ár flutti Birgitta ásamt fjölskyldu sinni aftur heim í desember í fyrra og ákvað í maí að skella sér í fyrirtækjarekstur. Nú hefur hárgreiðslustofan Zenso opnað á Hafnargötu en einnig eru ýmsar naglameðferðir í boði. Móðir Birgittu, Kristín Ása Davíðsdóttir sér um handsnyrtingu, ásetningu gelnagla og paraffín meðferð sem er t.d. góð fyrir fólk sem er með gigt. Birgitta vil leggja áherslu á að kúnnunum líði vel. „Planið er að hafa danskan fíling, bjóða upp á léttvín á föstudögum og alltaf að hafa gott kaffi og smá mola með.“

Langar að vera á grænni línu
Birgitta býður upp á hárvörur sem ekki endilega hafa verið algengar á öðrum hárgreiðslustofum hér á landi, það eru amerískar vörur að nafni KMS California sem eru vinsælar víða um heim. Einungis eru notuð náttúruleg efni í vörurnar og engin lyktarefni. „Mig langar að vera á grænni línu. Aflitunin sem ég er með er t.d. bara notuð á viðurkenndum grænum stofum, það er ekkert ammoníak. Einnig mun ég vera með liti sem heita Elumen og í þeim eru engin virk efni. Fólk sem er með ofnæmi getur því komið og valið þessa liti í staðinn fyrir þá hefðbundnu.“ Að auki verða í boði vörur frá danska, lífræna merkinu Zenz og síðan hágæðavörur frá Icon en þar á meðal er maski sem er gerður úr 24 karata gulli.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Opna heildsölu á netinu í kjölfarið
Þegar Birgitta var í undirbúningsferlinu að opna hárgreiðslustofuna fannst henni lítið úrval af húsgögnum og hlutum sem hún þurfti í reksturinn hér á landi. Ákváðu því Birgitta og Jóhann maður hennar að flytja inn eigin húsgögn og annan búnað og í kjölfarið á því ákváðu þau að opna heildsöluverslun á netinu. Til sölu verða hárgreiðslutæki frá Póllandi og Ítalíu en einnig almenn húsgögn eins og sófar, stólar og annað sem þarf á skrifstofur og biðstofur. „Okkur fannst lítið framboð af þessum hlutum og margir með alveg eins hjá sér. Verðið var heldur ekki nógu hagstætt og þess vegna ákváðum við að flytja þetta inn sjálf. Okkur langar að leyfa öðrum í fyrirtækjarekstri að njóta góðs af því,“ segir Birgitta.

Glæsileg opnunarhátíð á Ljósanótt
Á fimmtudagskvöldinu á Ljósanótt, 5. september verður opnunarhátíð Zenso haldin. Þar verður tískusýning haldin utandyra við hliðina á stofunni og mun Zenso sjá um hár og neglur. Fatabúðin Krummaskuð sem er einmitt staðsett beint á móti hárgreiðslustofunni, mun sýna fatnað á tískusýningunni. Ölgerðin verður með kynningu á víni og Bare minerals með snyrtivörukynningu.

Zenso er staðsett á Hafnargötu 26 og hægt er að panta tíma í síma 421-3030.