Ný gjaldskrá sorphirðu fyrirtækja tekur gildi um áramót
Ný gjaldskrá fyrir Sorpeyðingarstöð Suðurnesja tekur gildi þann 1. janúar 2004, en um áramótin verða breytingar á fyrirkomulagi sorphirðu og eyðingu úrgangs frá rekstraraðilum á Suðurnesjum. Breytingarnar felast í því að Sorpeyðingarstöð Suðurnesja mun hætta sorphirðu og eyðingu úrgangs frá rekstraraðilum. Í fréttatilkynningu á heimasíðu Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum kemur fram að frá 1. janúar þurfi rekstraraðilar að sjá um og bera allan kostnað af sorphirðu, flutning úrgangs og eyðingu hans á viðurkenndum eyðingarstað. Jafnframt er þeim bent á að leita til þjónustufyrirtækja með ílát undir rekstrarúrganginn. Rekstraraðilar skulu jafnframt ekki að greiða sorphirðugjöld frá og með 1. janúar 2004. Í tilkynningunni kemur einnig fram að sorphirða frá heimilum verði áfram í höndum Sorpeyðingarstöðvarinnar og að stöðin muni einnig sjá um eyðingu rekstrarúrgangs frá rekstraraðilum sem þess óska samkvæmt gjaldskrá.
Á bæjarstjórnarfundi í gær gagnrýndi Kjartan Már Kjartansson bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins harðlega að gjaldskrá Sorpeyðingarstöðvarinnar væri ekki tilbúin. Taldi Kjartan það vera ótækt þar sem fyrirtæki eru þessa dagana að gera fjárhagsáætlanir fyrir næsta ár. „Þar sem fyrirtæki þurfa nú að greiða fullt gjald fyrir sorphirðu þurfa þau að vita hvert gjaldið verður fyrir áætlanir næsta árs. Ný gjaldskrá á að taka gildi þann 1. janúar nk. og mér finnst það ótækt að gjaldskráin sé ekki tilbúin tæpum mánuði áður en hún á að taka gildi,“ sagði Kjartan m.a. um málið á bæjarstjórnarfundi í gær.
Að sögn Guðjóns Guðmundssonar framkvæmdastjóra Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja er fyrirhugaður fundur í stjórn stöðvarinnar á morgun þar sem drög að gjaldskrá verða lögð fram. Guðjón segist sammála þeirri gagnrýni sem kemur fram um að gjaldskráin sé helst til seint á ferðinni. „Við höfum verið að fara í gegnum lög og reglugerðir sem hafa flækt málin verulega í vinnunni við nýja gjaldskrá,“ sagði Guðjón í samtali við Víkurfréttir, en hann býst við að ný gjaldskrá líti dagsins ljós innan skamms. „Það er stjórn stöðvarinnar sem tekur ákvörðun um nýju gjaldskrána og ef drögin sem við leggjum fram á morgun verða samþykkt, þá getum við hafist handa við að kynna gjaldskrána.“
VF-ljósmynd/HBB: Kalka, nýja sorpeyðingarstöðin.