Ný fráveita í Vogum senn í gagnið
Framkvæmdir við fráveitu sveitarfélagsins Voga eru langt á veg komnar og stefnt er að því að ljúka þeim í nóvember. Kostnaður við þær mun nema 50 milljónum króna á fjárhagsáætlun þessa árs. Endurbætur á fráveitunni voru orðnar aðkallandi til að sveitafélagið uppfyllti nútímakröfur um umhverfismál, að sögn Eirnýjar Valsdóttur bæjarstjóra í Vogum. Lengja þurfti útrásir fráveitunnar í sjó og sameina þær í þrjár meginrásir. Eirný segir að í framhaldinu geti Vogarbúar notið þess að eiga hreinar fjörur til gönguferða og útivistar.