Ný flugslysaáætlun Keflavíkurflugvallar tekur gildi
Forsvarsmenn almannavarna á Keflavíkurflugvelli, ríkislögreglustjóri og landlæknir undirrituðu í dag nýja og endurskoðaða flugslysaáætlun fyrir Keflavíkurflugvöll.
Flugslysaáætlun Keflavíkurflugvallar segir fyrir um skipulag og stjórnun aðgerða í kjölfar flugslyss á Keflavíkurflugvelli eða annarsstaðar á Reykjanesskaga. Áætlunin er unnin af almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, lögreglustjórunum á Keflavíkurflugvelli og í Keflavík, almannavarnanefndum Keflavíkurflugvallar, á Suðurnesjum og í Grindavík og flugvallarstjóranum á Keflavíkurflugvelli. Allir viðbragðsaðilar og aðrir aðilar sem hagsmuna hafa að gæta voru hafðir með í ráðum við gerð áætlunarinnar sem tekið hefur allangan tíma.
Flugvallarstjórinn á Keflavíkurflugvelli er formaður almannavarnanefndar flugvallarins. Annast hann í samvinnu við almannavarnadeild ríkislögreglustjórans virkni flugslysaáætlunarinnar en lögreglustjóri fer með aðgerðastjórn.
Áætlunin er virkjuð þegar flugvél lýsir yfir viðbúnaðar- eða hættuástandi um borð eða flugvél brotlendir. Virkjun er tvískipt, annarsvegar þegar um er að ræða flugvél með níu manns eða færri eru um borð og hins vegar þegar tíu eða fleiri eru um borð. Einnig er mögulegt að virkja áætlunina á hærra stiginu ef farmur flugvélar getur hugsanlega valdið almannahættu þó svo að níu manns eða færri séu um borð.
Flugvallarstjórinn á Keflavíkurflugvelli hefur umsjón með reglubundnum æfingum einstakra verkþátta og að allir þættir áætlunarinnar séu æfðir að minnsta kosti á tveggja ára fresti í samvinnu við aðgerðastjórn og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.
Í samtali við Víkurfréttir sagði Björn Ingi Knútsson, flugvallarstjóri, að fyrst og fremst væri með þessu verið að samræma aðgerðir þeirra sem að koma að málunum. „Þarna var til dæmis tekið út allt sem varðaði Varnarliðið þanig að þessar áætlun er alíslensk. Þrisvar sinnum hefur verið unnið eftir þessari áætlun í ár, síðast í lok októbe, og gekk það vel þó þar hafi verið smá hnökrar, en við setjumst alltaf niður eftir á og skoðum hvað hefði mátt betur fara.“
Flugmálastjórn áætlar að halda stóra æfingu í viðbrögðum við stórslysi á flugvellinum næsta vor, sennilega í apríl eða maí, og verður hún svipuð að umfangio og stóra æfingin sem var haldin árið 2004.
VF-Mynd/Þorgils - Frá undirritun í dag