Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ný-fiskur í Sandgerði: Ný vinnslulína tekin í notkun
Mánudagur 21. janúar 2008 kl. 14:03

Ný-fiskur í Sandgerði: Ný vinnslulína tekin í notkun

Ný-fiskur í Sandgerði hefur tekið í notkun nýja vinnslulínu sem Valka, ungt íslenskt hátæknifyrirtæki, hefur hannað og smíðað.  Þetta er fyrsta flokkunar- og pökkunarlínan þessarar gerðar sem sett er upp en hún er hvort tveggja nákvæmari og sjálfvirkari en áður hefur þekkst og bætir hráefnismeðferð og nýtingu. Ný-fiskur hefur verið leiðandi í pökkun á ferskum fiski á Íslandi og hefur náð framúrskarandi árangri í vinnslu og markaðssetningu erlendis með afurðir sínar.

Vinnslulínan pakkar með sjálfvirkum hætti og af mikilli nákvæmni ferskum flökum og flakabitum í umbúðir af fastri þyngd. Þróun á búnaðinum hófst í upphafi árs 2006 og var þá þegar sótt um einkaleyfi. Það hefur verið gefið út á Íslandi og er nú í alþjóðlegu umsóknarferli.
Vinnslulínan markar tímamót við vinnslu á ýsu sem hingað til hefur verið handpökkuð sökum þess hve viðkvæmt hráefnið er.  Nákvæmni vinnslulínunnar er hins vegar slík að nú er hægt að pakka ýsu vandræðalaust með sjálfvirkum hætti, sem getur aukið mjög á arðsemi útflutnings á ferskri ýsu.

Ný-fiskur hefur sérhæft sig í markaðssetningu og sölu á hágæða fiski með það að markmiði að fá sem hæsta verð. Helsta stolt fyrirtækisins felst í að bjóða fisk til sölu á öllum helstu mörkuðum heimsins innan við einum sólarhring eftir að hann var veiddur við Íslandsstrendur.

Mynd: Nýja vinnslulínan var tekin í notkun að viðstöddu fjölmenni úr íslenskum fiskiðnaði. VF-mynd:elg.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024