Ný félags- og menningarmiðstöð fyrir ungt fólk í Reykjanesbæ
Á fundi bæjarstjórnar voru til afgreiðslu tillögur frá Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki um að koma á fót félags- og menningarmiðstöð ungs fólks í Reykjanesbæ. Tillögurnar voru mjög svipaðar og lýstu fulltrúar minnihlutans yfir almennri ánægju með tillögu meirihlutans. Kjartan Már Kjartansson bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins dró tillögu sína til baka og studdi tillögu Sjálfstæðisflokksins.Í máli Ólafs Thordersen bæjarfulltrúa minnihlutans kom fram almenn ánægja með tillöguna og sagðist hann verulega ánægður með að nú væri Sjálfstæðisflokkurinn loksins að leggja fram tillögu sem hann hefði gert 2 sinnum áður. Tillagan um stofnun félags- og menningarmiðstöð að Hafnargötu 88 var samþykkt með öllum atkvæðum.