Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ný Fab Lab smiðja vítamínsprauta fyrir nýsköpun og tækni
Þriðjudagur 6. september 2016 kl. 06:00

Ný Fab Lab smiðja vítamínsprauta fyrir nýsköpun og tækni

Undirritaður var samningur um Fab Lab smiðju á Suðurnesjum í Keili í gær. Í tilkynningu frá Nýsköpunarmiðstöð segir að með tilkomu hennar muni opnast endalausir möguleikar í tækni og nýsköpun fyrir skóla, atvinnulíf og almenning á Suðurnesjum. Smiðjan er samstarfsverkefni atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Keilis. Það voru þau Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Frosti Gíslason, verkefnastjóri hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis, sem undirrituðu samninginn.

Markmiðið með starfsemi Fab Lab á Reykjanesi er að auka þekkingu skólafólks og almennings á persónumiðaðri framleiðslu og stafrænum framleiðsluaðferðum. Verkefninu er ætlað að auka áhuga á verk- og tækninámi í grunn- og framhaldsskólum, auka tæknilæsi og tæknivitund og efla hæfni til nýsköpunar í námi og atvinnulífi. Markmið verkefnisins er ennfremur að skapa vettvang fyrir nýsköpun og að efla samkeppnishæfni fyrirtækja, menntastofnana og nemenda á Reykjanesi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í Fab Lab smiðjum eru kennd undirstöðuatriði stafrænnar framleiðslutækni; frá þrívíddarhönnun, til framleiðslu hluta og forritunar með hjálp tölvustýrðra tækja og tóla.  Í Fab Lab smiðjunni verður allra handa tækjabúnaður, til dæmis stór fræsivél til að búa til stóra hluti úr tré og plasti, lítil fræsivél til að fræsa rafrásir eða í þrívídd til mótagerðar, þrívíddarprentari, laserskerar til að skera út hluti í til dæmis pappa, plexígler, MDF eða við og merkja í gler, svo dæmi séu tekin. Þá verður í smiðjunni vinylskeri til að skera út límmiðafilmur og koparfilmur til að gera sveigjanlegar rafrásir. Í smiðjunni verður einnig rafeindabúnaður, sem hægt er að lóða á rafrásabrettin og forrita ásamt ýmsum gerðum af skynjurum. Þá verður einnig þrívíddarskanni og fjöldi tölva, hlaðinn opnum og frjálsum hugbúnaði til þess að hanna og búa til nánast hvað sem er.

Fab Lab Reykjanes er hluti samstarfsnets Fab Lab smiðja á Íslandi. Fab Lab Reykjanes tengist jafnframt alþjóðaneti Fab Lab smiðja, Fab Foundation sem Nýsköpunarmiðstöð er aðili að.