Ný björgunarmiðstöð fyrir Sigurvon í Sandgerði
Stjórn Björgunarsveitarinnar Sigurvonar í Sandgerði hefur unnið að því að byggja upp öfluga sjóbjörgunarsveit á síðustu árum. Til þess þarf að komast nær hafnarsvæðinu og 10. júlí sl. samþykkti bæjarráð Sandgerðis að veita Björgunarsveitinni Sigurvon lóð á hafnarsvæðinu (við hliðina á ísverksmiðjunni) fyrir athafnasvæði sitt endurgjaldslaust. Frá þessu greinir samfélagsvefurinn 245.is.
Sandgerðisbær kaupir húsnæði Sigurvonar við Strandgötu 17 og munu ýmsar breytingar fylgja í kjölfarið. Slökkviðliðið mun bæta aðstöðu sína, pílukastarar og skátar munu fá aðstöðu í húsinu og lögreglan mun einnig hafa aðsetur í húsinu.
Útlits- og grunnmyndir af nýju björgunarmiðstöðinni er klárar og útboð verður auglýst á næstu dögum.
Áætluð verklok eru í maí 2008 og er stefnan að halda upp á 80 ára afmæli Björgunarsveitarinnar Sigurvonar þann 28. júní 2008 með pomp og prakt í nýja húsnæðinu.
Fyrir rúmum mánuði var fjárfest í nýjum björgunarsveitarbíl að gerðinni Transporter '07 og er það sendiferðabíll sem notaður verður í ýmis minni verkefni sem Ford Econline '98 og Ford F350 '91 voru áður notaðir í.
Mynd og texti: www.245.is
.