Ný atvinnustefna í undirbúningi
Í Vogum er að hefjast vinna við nýja atvinnustefnu sveitarfélagsins en henni er ætlað að skilgreina betur sveitafélagið sem atvinnusvæði. Meðal annars verður horft til þess hvaða tækifæri eru fólgin í því fyrir sveitarfélagið að vera mitt á milli höfuðborgarsvæðisins og flugvallarins.
„Það eru mörg tækifæri og einhver þeirra hafa áhrif á önnur tækifæri. Þessu verkefni er ætlað að marka stefnuna og hvaða leið við ætlum að fara þannig að sveitarfélagið sé ekki að eyða púðri í eitthvað sem samræmist ekki því sem við viljum gera. Þessi vinna er að fara stað og við eigum eftir að koma okkar saman um þetta,“ segir Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri í Vogum.
Að sögn Róberts verður stuðst við sama vinnulagið og byggt var á við gerð skólastefnu sveitarfélagsins. Vinnu við hana lauk nýlega. Skipuð er fjögurra manna verkefnisstjórn og samráðshópur sem hefur það hlutverk að fjalla um sjónarmið ólíkra hagsmunaaðila.
----
VFmynd - Frá íbúaþingi í Vogum