Ný aðgerð við þvagleka breytir lífi fólks
Um 150 kvensjúkdómalæknir frá Norðurlöndunum sóttu norræna ráðstefnu hér í Eldborg í Grindavík um síðustu helgi. Að sögn Konráðs Lúðvíkssonar, yfirlæknis á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja gekk ráðstefnan mjög vel en aðal málefni hennar var neðri þvagvegur kvenna.M.a. var kynnt ný aðgerð við þvagleka sem hefur verið gerð í Keflavík og gengið mjög vel.Á ráðstefnunni var sérstaklega rætt um þessa nýju aðgerð við þvaglega en 14% allra kvenna og um 40% kvenna yfir 60 ára aldri þjást af þessum erfiða kvilla. Til viðbótar má nefna að stór hluti þeirra sem þjást af þvagleka leita sér ekki hjálpar. Ulf Ulmsten, prófessor við háskólasjúkrahúsið í Uppsölum í Svíþjóð kynnti rannsóknir undanfarinna ára og greindi frá niðurstöðum tengda þessari nýju aðgerð sem er byltingarkennd og einföld að því leytinu til að notuð er staðdeyfing og sjúklingar fá að fara heim sama dag eða daginn eftir, að aðgerð lokinni. Að sögn Konráðs hafa þrjátíu aðgerðir verið gerðar hér í Keflavík og allar gengið mjög vel. Heilbrigðisráðuneytið veitti stryk vegna þeirra en efniskostnaður við hverja aðgerð er um 30 þúsund krónur. Ulf Ulmsten, prófessor sagði að aðgerðin hafi verið gerð á eitt hundrað þúsund konum um allan heim og árangurinn væri mjög góður, yfir 90% sjúklinga fengi fullan bata. Konráð sagði að þvagleki væri feimnismál hjá mjög mörgum en talið er að um 20 þúsund Íslendingar þjáist af sjúkdómnum. Með því að fjölga aðgerðum væri ekki aðeins hægt að gjörbreyta lífi fólks heldur og spara stórfé í heilbrigðisgeiranum því áður fyrr þurftu konur að vera á sjúkrahúsi í mun lengri tíma eftir aðgerð. Einnig myndi sparast mikið í öðrum þáttum eins og t.d. bleiukostnaði en hann nemur milljónum á hverju ári. Konráð sagði að ferð kollega sinna til Suðurnesja hafi gengið vel og fólk verið ánægt með aðstöðu hér en allur hópurinn gisti á hótelum á Suðurnesjum. Farið var með norrænu gestina í skoðunarferðir og Bláa lónið og vakti þetta mikla ánægju.