Ný ábendingagátt á vef Reykjanesbæjar
Ný ábendingagátt fór í loftið á vef Reykjanesbæjar 1. júní, en um er að ræða eina einingu í gæðakerfi sveitarfélagsins sem hefur verið í innleiðingu seinustu ár. Gæðakerfi Reykjanesbæjar er CCQ frá Origo sem var tekið í notkun í janúar 2020.
Ábendingagáttin er notendavænni en fyrri lausnir og auðveldari úrlausnar fyrir starfsfólk. Ný ábendingagátt hentar öllum snjalltækjum og er því mjög auðvelt að grípa símann og senda ábendingu með einföldum hætti. Hægt er að senda myndir með ábendingunni og möguleiki er að senda staðsetningu á korti ef það á við.
„Öflugt bakendakerfi gerir það að verkum að starfsfólk getur brugðist hratt við ábendingum og komið þeim í réttan farveg. Kerfið sýnir einnig hvar ábendingin er stödd innan stjórnsýslunnar sem gerir eftirfylgni markvissari en áður. Hver og ein ábending bætir okkur sem sveitarfélag og tekur Reykjanesbær fagnandi á móti öllum ábendingum,“ segir í tilkynningu frá Reykjanesbæ.