Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

„Núna heyrist í skólabjöllunni“
Á þessum gangi er venjulega mikið fjör og skvaldur.
Þriðjudagur 18. mars 2014 kl. 10:43

„Núna heyrist í skólabjöllunni“

- Sex nemendur í FS í morgun.

Tómlegt var um að litast í umhverfi og innanhúss í Fjölbrautaskóla Suðurnesja í morgun. Verkfall framhaldsskólakennara hófst í gær, fáir starfsmenn voru í skólanum og einungis fimm nemendur.

Heba Ingvarsdóttir, skólaritari, sagði frekar tómlegt að koma til vinnu. „Núna heyrist í skólabjöllunni, sem venjulega heyrist varla í fyrir umgangi. Svo hringir hér einn og einn, nemandi eða foreldri, til þess að spyrja hvort það sé verkfall og hversu lengi það mun vara.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Á bókasafni skólans sátu þrír nemendur og lærðu. Þeir voru sammála um að þeir vildu að kjaradeilur myndu leysast sem fyrst því misserið væri afar dýrmætt og tíminn líka. Magnea Frandsen er á náttúrufræðibraut og kærasti hennar, Bjarki Þór Wíum Sveinsson, á félagsfræðibraut. Páll Karel Kristjánsson rýndi í námsbækur í vélstjórnun.

Á starfsbraut hittum við Erlu Sif Kristinsdóttur, sem púslaði, og Ívar Egilsson og Stefanía Guðnadóttir voru einbeitt við sína iðju.

Skólameistarinn Kristján Ásmundsson sagðist vonast til þess að nemendur reyni að hittast og halda hópinn þrátt fyrir verkfall. „Það skiptir svo miklu máli, sérstaklega fyrir nemendur sem standa síður vel, að halda eins mikilli rútínu og hægt er. Að mæta í skólann og hitta félaga sína hefur mjög mikið að segja, ekki bara spjalla saman á Facebook.“ Kristján hvetur nemendur til að huga að náminu því ef verkfall dregst á langinn gæti orðið erfitt að ná upp því sem misst hefur verið úr.

Starfsfólk skólans sem blaðamaður ræddi við var á einu máli um að það styður kjarabaráttu kennara en er um leið annt um velferð unga fólksins og vonar að deilur leysist sem fyrst.

Hér er venjulega lagt í öll stæði.

Fátt í boði í veitingasölunni.

Heba Ingvarsdóttir, skólaritari.

Magnea Frandsen og Bjarki Þór Wíum Sveinsson.

Páll Karel Kristjánsson.

Erla Sif Kristinsdóttir.

Stefanía Guðnadóttir og Ívar Egilsson.

Kristján Ásmundsson, skólameistari.

Jón Þorgilsson og Sigurður Geirfinnson, umsjónarmenn fasteigna.

VF/Olga Björt