Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

„Nú er tækifæri til að hrinda hugmyndum í framkvæmd“
Miðvikudagur 23. janúar 2008 kl. 17:03

„Nú er tækifæri til að hrinda hugmyndum í framkvæmd“

Atvinnuþróunarráð Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum býður Suðurnesjabúum upp á nokkur námskeið nú á næstunni. Námskeiðin snúa m.a. að fyrirtækjarekstri og framkvæmd hugmynda.  Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum sér um skipulagningu námskeiðanna.


„Þetta eru þrjú námskeið sem Atvinnuþróunarráð SSS stendur fyrir í samstarfi við MSS. Námskeiðin snúa öll að því að aðstoða fólk með að koma hugmyndum sínum af stað,  hjálpa til með viðskiptahugmyndir, gerð markaðs- og viðskiptaáætlana, hvernig skuli standa að markaðssetningu og eitt námskeiðið fjallar um  hvernig skuli standa að stofnun og rekstri  lítillra fyrirtækja,“ segir Birna Vilborg Jakobsdóttir verkefnastjóri hjá MSS aðspurð um námskeiðin.
Birna segir að námskeið sem þessi veiti þeim sem þau sækja góðan grunn og aðstoð við þau margvíslegu verkefni sem fylgja því að fara af stað með viðskiptahugmynd eða stofna fyrirtæki og nú sé því tækifæri til að hrinda hugmyndum í framkvæmd.


„Atvinnuþróunarráðið er hér að veita Suðurnesjabúum mjög gott tækifæri, en tvö námskeið, Stígum skrefið og Stofnun og rekstur smáfyrirtækja, eru alfarið í boði Atvinnuþróunarráðs og þátttakendum að kostnaðarlausu og námskeiðsgjald þriðja námskeiðsins er niðurgreitt. Það námskeið er Sóknarbraut á Suðurnesjum og er í samstarfi við Impru Nýsköpunarrmiðstöð. Um er að ræða öflugt námskeið sem nær yfir 9 skipti þar sem þátttakendur fá handleiðslu og brúa bilið milli hugmyndar að fyrirtæki og markvissrar framkvæmdar. Við lok námskeiðsins hafa þátttakendur komið hugmyndum sínum á framkvæmdastig. Sóknarbraut hentar þeim sem vilja hefja eigin atvinnurekstur eða bæta núverandi starfsemi og einnig þeim sem starfa sem stjórnendur í minni fyrirtækjum og vilja auka þekkingu sína á rekstri og bæta árangur, “ segir Birna.


 Nánari upplýsingar um námskeiðin má fá hjá Birnu Vilborgu hjá Miðstöð símenntunar í síma 421-7500 og með því að senda tölvupóst á [email protected]



Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024