„Nú er komið nóg!“
- segja eigendur hótels Keilis.
„Þessi sonur sitjandi bæjarfulltrúa er búinn að vaða yfir okkur úti um allt. Nú er komið nóg! Við höfum bara reynt að reka hér fyrirtæki á heiðarlegan hátt. Það er búið að stúta hérna rúðum fyrir okkur, ráðast á bílana okkar og gestanna okkar. Það er komið á vefsíður úti í heimi: Ekki gista á Hótel Keili því það er ekki hægt að vera þarna fyrir hávaða,“ segir Bryndís Þorsteinsdóttir, en hún og Ragnar Skúlason, eiginmaður hennar eru eigendur Hótels Keilis, sem staðsett er að Hafnargötu 37, hinum megin Hafnargötu í Reykjanesbæ, á móti skemmtistaðnum Paddy's. Hún segist afar ósátt við þá umræðu sem skapast hefur um eigendur hótelsins vegna framtíðar Paddy's.
Brotnar rúður og speglar á bílum
„Þetta hús er orðið yfir 100 ára gamalt og heldur engum hljóðum samkvæmt nútímastöðlum. Samkvæmt okkar heimildum hefur ekki verið hávaðamælt þar og hundruð lögregluskýrslna eru til vegna hávaða sem ekki hafa verið kærðar. Ég hef þurft að kalla á lögregluna út af brjáluðum gestum okkar vegna látanna fyrir utan. Gestir frá Paddy's hefur ráðist hérna inn til mín svo að dyraverðir hafa þurft að læsa hurðunum hérna,“ segir Bryndís og bætir við að stór rúða hafi verið brotin í móttöku hótelsins um þarsíðustu helgi.
Drykkir teknir með út
„Svo er búið að brjóta nokkra spegla á bílum hérna fyrir utan, sparka í hurðir á bílum og brjóta margt hérna og skemma fyrir okkur. Við erum búin að vera eins og lögreglumenn á vaktinni hérna, hlaupandi á næturnar tínandi flöskur og gler og annað og jafnvel hjálpa ölvuðu fólki í neyð.“ Spurð segist Bryndís stundum hafa gengið yfir til rekstraraðila Paddy's og beðið þá um að loka dyrunum en það hafi gengið illa. „Fólkið fer út og reykir og tekur með sér drykkina. Það er ólöglegt. Við sjáum þetta allt héðan.“
Leigusamningur framlengdur
Ragnar Skúlason, sem rekið hefur rakarastofu í sama húsnæði í áratugi, tók fyrstu skóflustunguna að byggingunni við Hafnargötu 37 árið 1977 og þá var gert ráð fyrir íbúðum á tveimur efri hæðum hússins. Samkvæmt heimildum Víkurfrétta hefur rekstur skemmtistaða verið í húsnæðinu að Hafnargötu 38 síðan í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar.
Hafist var handa við að breyta húsnæðinu við Hafnargötu 37 í hótel fyrir 11 árum. Bryndís segir að Ragnar hafi talað við Árna Sigfússon, fyrrum bæjarstjóra, sem hafi sagt að líklega væru þrjú ár eftir af leigusamningi fyrir rekstri skemmtistaðar við Hafnargötu 38 og þegar rekstur hótelsins hófst hafi þau áttað sig almennilega á hávaðanum. Leigusamningurinn rann svo út um síðastliðin áramót. „Mig langar að vita hvers vegna Björgvin Ívar og þeir sem ráku staðinn síðast voru að mála veggi þarna inni þegar þeir vissu að leigusamningur var að renna út. Þeir voru bara þarna fram að áramótum í umboði fyrrum leigutaka,“ segir Bryndís.
Ekki hannað sem skemmtistaður
Víkurfréttir töluðu einnig við Þorstein Lár, son Bryndísar og Ragnars, sem heldur því fram að leikutaki Paddy's þar til aðrir tóku við um miðjan desember hafi verið að selja þar áfengi á ýmsum tímum sólarhringsins. „Við höfum verið vitni að því. Viðskiptavinir okkar hafa sagt okkur af fíkniefnaviðskiptum þarna í áranna rás.“ Þorsteinn segir einnig að sér blöskri að réttur fatlaðra sé vanvirtur og engin aðstaða fyrir þá á Paddy's. „Þetta hús var ekki hannað sem skemmtistaður. Í Reykjavík eru skemmtistaðir látnir gera ráðstafanir miðað við staðsetningu og hljóðeinangra hjá sér eða vera með tvöfaldan inngang - ekki þeir sem þurfa að þola hávaðann frá þeim.
Óhentugur staður
Þorsteinn Lár segir að gerður hafi verið undirskriftalisti til að mótmæla veru skemmtistaðar við Hafnargötu 38. „Þar skrifaði undir fjöldi skoðanabræðra og -systra okkar. Það verða allir að geta gengið sáttir frá borði þegar um ólíkan rekstur er að ræða í svona máli. Það er því miður ekki þannig núna. Við vorum hvött í gegnum tíðina til að kvarta til að geta haft möguleg áhrif og það höfum við einfaldlega gert. Við gátum ekki staðið í því að labba þarna yfir og biðja um að lækka tónlistina eða loka dyrunum. Það þarf einfaldlega að skoða betur opnunartíma svona staðar því þarna hefur fólk safnast saman eftir lokun hinna skemmtistaðanna. Svo væri bara farsælast að hafa svona rekstur í húsnæði sem hentar betur. Þessi staður er alltof lítill fyrir svona margt fólk.“ Þorsteinn segist einnig ekki hafa verið í neinni samkeppnu við Paddy's. „Þvert á móti höfum við vísað fólki til þeirra að skemmta sér.“
Hótel Keilir til hægri en Paddy's er til vinstri.