Nös í margra vikna hrakningum föst í dýraboga
- birtist heima á hlaði í Grindavík á gamlársdag
Nös er tveggja vetra kind í eigu frístundabóndans Theodórs Vilbergssonar í Grindavík. Hann á sextán kindur sem fram til 25. nóvember sl. voru í hólfi vestan við Grindavík. Þá voru kindurnar teknar í hús, allar nema Nös. Hún fannst ekki en síðast hafði Theodór séð Nös þann 19. nóvember.
„Ég leitaði að henni án árangurs. Ég taldi að hún hafði farið í sjóinn en það er hætta á því á þeim slóðum þar sem féð var þar sem sjór flæðir á land í vondum veðrum,“ sagði Theodór í samtali við Víkurfréttir.
Theodór átti ekki von á því að sjá Nös heima í hlaði á gamlársdag en frá svæðinu þar sem hún sást síðast og heim eru hátt í fjórir kílómetrar. Nös haltraði þegar hún kom heim og ekki furða því hún var föst í minkaboga og með ljótt sár undan honum og mikið bólgin. Það sé því ljóst að Nös hafi verið í margra vikna hrakningum áður en hún rataði heim til sín. Theodór hefur áhyggjur af því að hver sem er fái nú að leggja út minkaboga eftirlitslaust í bæjarlandi Grindavíkur. Dýrabogar séu varasöm tól sem eigi að vitja um daglega en ekki láta liggja úti eftirlitslaust vikum saman.
Nös var mætt á Dýralæknastofu Suðurnesja á miðvikudagsmorgun til að láta skipta á sárinu sem hún fékk undan minkaboganum. Sárið er allan hringinn um annan framfótinn. Theodór vill meina að Nös sé búin að vera með minkabogann um fótinn í um einn og hálfan mánuð þar sem hún var ekki með hinum kindunum þegar þær voru sóttar 25. nóvember.
Nös er nú komin með nýjar umbúðir um sárið og var einnig steypt í gipsi þar sem hún er hugsanlega brotin. Þá er hún komin á sýklalyfjakúr næstu daga. Hún á alla möguleika á að ná sér af meiðslunum. Ekki hafi komið til greina að lóga henni, enda megi segja að þegar menn haldi sextán rollur þá séu þær frekar eins og gæludýr.
Sárið eftir minkagildruna var djúpt en engin sýking var komin í sárið. VF-myndir: Hilmar Bragi
Nös er með áverka á öðrum framfætinum eftir minkabogann sem einnig sést á þessari mynd.
Nös hjá dýralækninum á miðvikudagsmorgun. Örlítið búin að kúka og pissa á gólfið og með pensilín-sprautuna í rassinum... Svona er þetta rollulíf!
Dýralæknirinn setur Nös í gipsi og svo fékk hún bláar umbúðir þó svo að Theodór hafi viljað hafa þær grænar - í stíl við stjórnmálin.
Nös hjá dýralækninum á miðvikudagsmorgun. Hér er hún komin í gipsi og að neðan er Nös á leiðinni heim. Hún fékk fylgd dýralæknis alveg út á vagn sem notaður var til að flutningsins.