Norskir hermenn fengu veislu sem Reykjavíkurborg afpantaði á veisludegi
Reykjavíkurborg afpantaði veislu fyrir 250 manns hjá SOHO veitingum í Reykjanesbæ rétt fyrir hádegi á laugardaginn eða sex klukkustundum áður en veislan átti að hefjast. Örn Garðarsson, veitingamaður, sagði frá þessu í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í morgun.
Í viðtalinu sagði Örn að það væri ekki sanngjarnt að veitingamenn þurfi að bera tjónið af afbókunum. Mikil vinna hafi verið lögð í veisluna í þessu tilviki. Launakostnaður sé stærsti útgjaldaliðurinn sem fari forgörðum.
Á laugardaginn voru veisluföngin einnig tilbúin að mestu. Það hafi Erni verið til happs um helgina að hann sér einnig um mötuneyti fyrir Landhelgisgæsluna á Keflavíkurflugvelli. Þar séu nú norskir hermenn sem sinna loftrýmisgæslu og þeir hafi notið veislufangana.
Veislan fyrir Reykjavíkurborg er ekki eini stóri viðburðurinn sem afpantaður var hjá SOHO í síðustu viku því einnig voru afpantaðar veitingar fyrir stóran fund hjá Samfylkingunni sem vera átti í Hljómahöll um nýliðna helgi en var frestað vegna COVID-19 faraldursins.