Norsk yfirvöld taka yfir björgun Guðrúnar
Sjávarútvegsráðherra Noregs, Svein Ludvigsen hefur falið norsku strandgæslunni að hefja aðgerðir af hálfu ríkisins til að bjarga fjölveiðiskipinu Guðrúnu Gísladóttur af hafsbotni þar sem hún liggur við Lófót, en frá þessu er sagt á mbl.is. Í dag verður lokið við að semja við fyrirtæki um björgun skipsins, samkvæmt upplýsingum frá norsku strandgæslunni. Gert er ráð fyrir að verkið taki allt að fjórar vikur miðað við hagstætt veður og áætlað er að verkið kosti um 120 milljónir króna.
Fram kemur í frétt mbl.is að skipinu verði fyrst náð á flot og það síðan tæmt af 390 tonnum af olíu og 870 tonna síldarfarmi. Verður verkið framkvæmt þannig að sem minnst hætta verði á mengun, en mesta hættan stafar af olíunni sem er um borð í Guðrúnu og verða gerðar sérstakar ráðstafanir til að vera við því búnir ef olía lekur úr skipinu meðan á björgun þess stendur.
Að sögn strandgæslunnar verður björgunin framkvæmd á kostnað íslenska útgerðarfélagsins Festi á grundvelli ákvæða norsku mengunarlöggjafarinnar. Hafi norska ríkið grípið inn í björgunina þar sem björgunaraðilar hafi ekki staðið við að framkvæma verkið á tilsettum tíma.
Fleiri fréttir af mbl.is