Norsk flugsveit með aðsetur á Ásbrú
Þrjár norskar F16-orrustuþotur ásamt um 40 manna fylgdarliði munu stunda æfingar og sinna loftrýmisgæslu hér við land næstu tvær vikur. Norsku þoturnar þrjár lentu á Keflavíkurflugvelli undir kvöld í gær ásamt flutningavél frá sænska flughernum, sem flutti vistir Norðmanna til landsins. Spánverjar hættu nýverið við að senda flugsveit hingað til lands vegna kostnaðar og mun norska flugsveitin koma í þeirra stað. Norska sveitin verður með aðsetur hjá Varnarmálastofnun Íslands á Ásbrú.
Koma erlendra flugsveita til Keflavíkurflugvallar eru mikil uppgrip fyrir svæðið, en sveitirnar þurfa mikla þjónustu. Kostnaður vegna komu norsku sveitarinnar er á bilinu sex til átta milljónir en sú upphæð rennur að stórum hluta til þjónustuaðila á Suðurnesjum. Þannig eru t.a.m. leigðir fjölmargir bílaleigubílar fyrir Norðmennina, auk þess sem þeir nota ýmsa aðra þjónustu á svæðinu.
Von er á bandarískri flugsveit til loftrýmisgæslu í haust.
Fyrsta þotan af þremur kemur inn á þjónustusvæði norsku vélanna á vestursvæði Keflavíkurflugvallar.
... og hinar tvær fylgdu í kjölfarið.
F-16 herþotur norska hersins eru rennilegir gripir.
Vélarnar bera bara einn mann og hann hefur glæsilegt útsýni úr flugstjórnarklefanum.
Norsku þoturnar hafa næturstað í sprengjuheldum flugskýlum á Keflavíkurflugvelli.
Um leið og vélarnar voru lentar í gær var þeim komið í öruggt skjól...
... og hér er þotunni bakkað inn í skýlið. Hávaðinn var gríðarlegur.
Það var hins vegar sænski herinn sem flutti norsku nágranna sína til Íslands.
Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson