Norðurljósahúsum verði fundinn annar staður
Fyrirtækið GSE ehf. lagði á dögunum inn fyrirspurn til framkvæmda- og skipulagsráðs Suðurnesjabæjar hvort heimiluð yrði stækkun lóðar að Norðurljósavegi 2 til að byggja á henni fjögur „Norðurljósahús“.
í afgreiðslu ráðsins segir að Norðurljósavegur 2 er á svæði sem deiliskipulagt var undir hótel, gististarfssemi og þjónustu árið 2015. Sú lóðarstækkun sem óskað er eftir er ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag auk þess sem svæðið er skv. gildandi Aðalskipulagi skilgreint sem „opið svæði“.
Við deiliskipulagsgerð svæðisins var m.a. lögð áhersla á að byggingar ofan Skagabrautar færu ekki nær götunni en skipulagið gerir ráð fyrir til að þrengja ekki um of að sérkennum svæðisins og víðáttu. Ráðið hafnar með fyrrgreindum rökum hugmyndum um lóðarstækkun og hvetur lóðarhafa til að finna hugmyndinni aðra staðsetningu innan núverandi lóðar.