Norðurál fer fram á stækkun í Helguvík við ráðherra
Norðurál hefur farið þess á leit við iðnaðarráðuneytið að flýta framkvæmdum við álverið í Helguvík og óskað eftir heimild til að byggja stærra ver en upphaflega var áætlað. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins barst ósk þessa efnis til ráðuneytisins nýlega.
Framkvæmdir við álver Norðuráls í Helguvík ganga samkvæmt áætlun; öll leyfi liggja fyrir og úthlutun losunarheimilda barst í lok september. Losunarheimildir leyfa framleiðslu á 50 þúsund tonnum af áli árið 2010 og 150 þúsund tonnum árin 2011 og 2012, eins og áætlað hefur verið. Nú liggur á borði iðnaðarráðherra erindi frá Norðuráli þar sem áhugi fyrirtækisins á að stækka álverið kemur fram. Fyrirtækið hefur einnig hug á að flýta framkvæmdum, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.
Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, segir það rétt að Norðurál vilji flýta framkvæmdum. Búið sé að tryggja orkusamninga til að hefja framleiðslu í árslok 2010 en frekar óljóst sé um hversu fljótt náist að afla orku til þeirrar framleiðslu sem áætluð er í framhaldinu. „Það sem þeir eru að leggja áherslu á er að flýta framkvæmdum og leggja fjármagn inn í landið í auknum mæli. Þeir hafa fjármagn til að halda hratt áfram að því gefnu að orka fáist."
Umhverfismatið fyrir álverið í Helguvík gerir ráð fyrir 250 þúsund tonna framleiðslu en að sögn Árna leyfir aðstaðan í Helguvík um 350 þúsund tonna álver. „Ég hef ekki upplýsingar um hugsanlega stækkun enda er hún bundin nýju umhverfismati og nauðsynlegum leyfum að sjálfsögðu."?Árni segir að alltaf hafi legið fyrir áhugi fyrirtækisins um að reisa stærra álver en 250 þúsund tonn. „Þetta er alltaf hugsað í 120 þúsund tonna áföngum og þá er um þrjá áfanga að ræða. Umhverfismatið gerir ráð fyrir fyrsta og öðrum áfanga og í mínum huga snýst verkefnið um að ljúka þeim áður en menn velta vöngum yfir stækkun."
Ágúst F. Hafberg, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og samskipta, segist ekki geta tjáð sig um hvort Norðurál hafi sent inn erindi til iðnaðarráðuneytisins. Aðspurður um hvort þróun efnahagsmála á Íslandi og í heiminum hafi haft áhrif á fyrirtækið svarar Ágúst að efnahagsástandið hafi ekki haft áhrif á fyrirtækið hingað til og áform varðandi byggingu álvers í Helguvík standi.?Ekki náðist í iðnaðarráðherra við vinnslu fréttarinnar.
Heimild: Visir.is