Norður-Víkingur hefst á morgun
Heræfingin Norður Víkingur hefst á morgun og stendur til 10. júní, en æfingin er haldin í samræmi við varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna frá árinu 2006.
Þetta er í þriðja skiptið sem æfingin fer fram í þessari mynd en áður var æfingin haldin í fjölda ára af Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli, sem nú ber nafnið Ásbrú. Þátttökuþjóðir að þessu sinni eru Danmörk, Ítalía, Noregur og Bandaríkin. Það er bandaríski flugherinn í Evrópu sem ber ábyrgð á æfingunni, en ítalska flugsveitin tekur þátt í fyrsta skipti.
Meðal annars verða æfðir liðsflutningar til og frá landinu með áherslu á varnaræfingar í lofti, auk verkefna á sjó. Reynt verður að hafa verkefnin sem raunverulegust. Gert er ráð fyrir að kostnaður ríkisins vegna æfingarinnar verði tæpar 30 milljónir króna, en öll útgjöld fara til þjónustufyrirtækja hér á landi.
Myndir úr safni Víkurfrétta: Norður-Víkingur fyrir nokkrum árum