Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Norðmenn áhugasamir um varnarsamstarf
Laugardagur 25. mars 2006 kl. 10:29

Norðmenn áhugasamir um varnarsamstarf

Framtíðarlausn á varnarmálum Íslands gæti falist í samningum við Norðmenn eftir brotthvarf bandaríska varnarliðsins, hugsanlega með liðsinni Dana og innan ramma NATO-samstarfsins. Þetta segir norski varnarmálasérfræðingurinn John Berg í samtali við Fréttablaðið.

 

Berg bendir á að Íslendingar verði að gera það upp við sig hvort þeir telji að fjórar orustuþotur og þrjár björgunarþyrlur séu í raun nægur lágmarksviðbúnaður til að landvörnum Íslands geti verið sinnt með trúverðugum hætti, eða hvort annars konar viðbúnaður sé betur við hæfi.

 

Berg nefnir að vel sé hugsanlegt að norsku Orion-skrúfuþoturnar, sem sinna reglubundnu eftirliti með norsku land- og lofthelginni, sinni slíku eftirliti líka í íslensku lögsögunni samkvæmt samkomulagi við íslensk stjórnvöld. Það má örugglega athuga hvort ekki megi gera þær að hluta til út frá Keflavík, segir Berg.

Hvað orustuþotur varðar segir Berg vel athugandi að norskar þotur komi í stað hinna bandarísku. Norðmenn eru nú að semja um endurnýjun orustuþotuflota síns, en það eru samningar upp á um 400 milljarða íslenskra króna. Enginn ætlist til að Íslendingar kaupi orustuþotur, en vel geti hugsast að íslensk stjórnvöld legðu til fé til að standa straum af einhverjum hluta kostnaðarins af rekstri þeirra þotna sem sinna myndu loftvörnum Íslands. Íslendingar gætu líka fengið þjálfun í Noregi til að gegna ýmsum störfum í kringum slíka herþotuútgerð, sem og í björgunarþyrluútgerð og fleiri þáttum sem tengjast vörnum og öryggi landsins.

 

Legði Ísland álíka mikið fé til varnarmála og Norðmenn eða Danir gera sem hlutfall af þjóðartekjum og höfðatölu, væri sú fjárhæð á bilinu 17 til 19 milljarðar króna árlega. Berg segir að eðlilega geti þróað land eins og Ísland ekki reitt fram til varnarmála 17 milljarða króna frá einu ári til annars, En sé byrjað á segjum 500-1000 milljónum íslenskra króna og það framlag síðan aukið smátt og smátt er vel hægt að byggja upp það samstarf sem þurfa þykir, segir hann.

Spurður hvort hann telji að norsk stjórnvöld hefðu áhuga á að gera slíka samninga við Íslendinga segir Berg að hann sjái enga ástæðu til að þau hefðu hann ekki.

Margt fleira sem varðar landvarnir og öryggi geti komið til umræðu í slíku varnarsamstarfi Íslands og Noregs, svo sem liðsafla sem gæti brugðist skjótt við ef til hryðjuverks skyldi koma - það er margt sem getur átt erindi inn í þessa umræðu, segir John Berg.

 

Frétt af visir.is
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024