Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Nokkur hús á Víkurbraut  í Grindavík ónýt
Stórar sprungur ganga í gegnum hús Helgu við Víkurbraut. VF/JPK
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
fimmtudaginn 30. nóvember 2023 kl. 09:41

Nokkur hús á Víkurbraut í Grindavík ónýt

„Ég og mín fjölskylda stefnum á að flytja aftur til Grindavíkur,“ segir Helga Gestsdóttir sem á hús við Víkurbraut í Grindavík en telja má víst að hennar hús, ásamt fleiri húsum við Víkurbrautina, sé ónýtt eftir hamfarirnar að undanförnu í Grindavík. Helga sem hafði verið með dagvistun fyrir börn í bílskúrnum en var í fæðingarorlofi og ætlaði að taka upp þráðinn aftur í mars, þarf að finna nýtt húsnæði fyrir starfsemina. Blaðamaður og ljósmyndari Víkurfrétta fengu að kíkja inn í húsið og var það vægast sagt mjög sérkennileg upplifun, mikill halli á gólfinu og lá við að sjóveiki gerði vart við sig.

Helga Gestsdóttir, íbúi við Víkurbraut í Grindavík.

Helga var sjálf ekki hrædd en ákvað að flýja heimilið þegar fjögurra ára sonur hennar sagðist vera hræddur. „Ég er mjög jarðbundin að eðlisfari og það þarf mikið til að hreyfa við mér en þegar sonur minn sagðist vera hræddur ákvað ég að þetta væri komið gott og pakkaði niður fyrir tvo daga. Þessir skjálftar voru miklu kröftugri en ég var vön en ég átti ekki von á öðru en getað snúið aftur heim þegar þessari hrinu myndi linna. Þegar ég yfirgaf heimilið sá ég engar skemmdir en bróðir minn bauðst til að kíkja á það þegar hann kom til Grindavíkur eftir að það var leyft að nýju og honum brá þegar hann kom inn. Þá var kominn mikill halli og nokkuð ljóst að húsið er ónýtt. Ég hef heyrt að húsin næst mér séu líka ónýt, sprungan liggur í gegnum þau. Ég og mín fjölskylda stefnum á að flytja aftur til Grindavíkur þegar þessu linnir en við erum á leiðinni í frí til Indónesíu þaðan sem maðurinn minn er. Það var ákveðið áður en þetta kom upp á og engin ástæða til að breyta þeim plönum. Svo verðum við bara að sjá hvernig málin þróast en okkar hugur er að flytja aftur til Grindavíkur,“ sagði Helga.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Nánar er rætt við Helgu í spilaranum hér að neðan.