Nokkrir kennarar hafa dregið uppsagnir til baka
- Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ hafa fundað með kennurum í vikunni
Fulltrúar bæjaryfirvalda í Reykjanesbæ heimsóttu fimm af sex grunnskólum bæjarins í vikunni og áttu fundi með kennurum um hvernig ná megi sátt um starfsumhverfi þeirra og létta af þeim álagi. Fundað verður í sjötta skólanum á mánudag. Að sögn Kjartans Más Kjartanssonar, bæjarstjóra í Reykjanesbæ, hafa umræður verið hreinskiptar og málefnalegar. „Við vorum fyrst og fremst að koma þeim skilaboðum áleiðis að við erum tilbúin í samtal við grunnskólakennara um starfsaðstæður þeirra og ætlum að fara í þá vinnu strax í janúar.“ Hann segir mismunandi hvað brenni á kennurum, misjafnt á milli skóla og einnig inn hvers skóla eftir því hvaða viðfangsefni kennarar eru að fást við. Meðal atriða sem nefnd hafa verið eru framkvæmd vinnumats, innleiðing aðalnámskrár, breytt fyrirkomulag námsmats og ýmsir aðrir þættir sem valda kennurum álagi í starfi.
Nokkur fjöldi kennara í Reykjanesbæ sagði starfi sínu lausu á dögunum og mun að óbreyttu hætta 28. febrúar. Til að mynda sögðu 20 kennarar við Njarðvíkurskóla upp og 10 í Holtaskóla. Nokkrir hafa þegar dregið uppsagnir sínar til baka og segir Kjartan það mjög ánægjulegt. „Við vonum að sjálfsögðu að sem flestir geri það sama á næstu dögum.“