Nokkrir aðilar hafa áhuga á Wilson Muuga
Nokkrir aðilar hafa þegar sýnt því áhuga að kaupa Wilson Muuga af núverandi eigendum. Guðmundur Ásgeirsson, stjórnarformaður Nesskipa, eigenda skipsins, sagði í fréttum Stöðvar 2 á miðvikudaginn að ekki væri til aðstaða hér á landi til að gera við skipið.
Til þess þyrfti að draga það inn í Miðjarðarhaf eða jafnvel Svartahaf þar sem stálviðgerðir eru ódýrar. Guðmundur taldi afar ólíklegt að Nesskip myndu láta gera við skipið sem er orðið meira en þrjátíu ára gamalt. Auk þess er ekki til nógu stór slippur hér á landi til verksins.
Wilson Muuga var dreginn á flot í Hvalsnesfjöru á þriðjudagskvöld og liggur nú við bryggju í Hafnarfjarðarhöfn.